Viðskipti innlent

Hagfræðiprófessor: Óþarfi að hafa miklar áhyggjur af ferðaþjónustufyrirtækjum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Breytingar á virðisaukaskatti munu ekki skapa samdrátt í ferðaþjónustu að mati hagfræðinga.
Breytingar á virðisaukaskatti munu ekki skapa samdrátt í ferðaþjónustu að mati hagfræðinga. vísir/vilhelm
Hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu upp í efra þrep mun ekki hafa alvarleg áhrif á afkomu ferðaþjónustu á Íslandi. Þetta er mat Daða Más Kristóferssonar, prófessors í hagfræði.

„Þessi tegund gjaldheimtu, hvort sem það er virðisaukaskattur, komugjöld eða gistináttaskattur þyrfti að vera gríðarlega há ef hún ætti að hafa áhrif á eftirspurn eftir Íslandi sem ferðamannalandi, alveg sama hvað ferðaþjónustan segir,“ fullyrðir Daði í samtali við Fréttablaðið.

„Ef hún lifði af 20 til 30 prósenta hækkun krónunnar þá er hækkun á virðisaukaskatti tæplega til að setja hana á hliðina,“ bætir hann við.

Í fimm ára fjármálaáætlun ríkisins er gert ráð fyrir að færa virðisaukaskatt á ferðaþjónustu upp í efra þrep. Á hinn bóginn verður efra þrepið lækkað úr 24 prósentum í 22,5 prósent.

Þessar fyrirætlanir byggja á tillögum sem verkefnisstjórn um breytingar og umbætur á skattkerfinu skilaði til Samráðsvettvangs um aukna hagsæld í haust. Daði Már er formaður verkefnastjórnarinnar.

Við lögðum til að þetta yrði gert. Vegna þess að það er ódýrara að reka skattkerfið þegar það eru fáar undanþágur í því. Það er minna til að verja í eftirlit og svo er þetta niðurgreiðsla á einni atvinnugrein sem ég sé enga ástæðu fyrir.

Hann bætir við að það sé alltaf einhver kostnaður sem hlýst af ferðaþjónustunni fyrir hið opinbera sem sé eðlilegt að fjármagna með hækkun skatta.

Í þessu tilfelli hafi þó verið ákveðið að verja andvirðinu til þess að lækka efra skattþrepið og þar með lækka skatta á aðra.

Hrafn Steinarsson, sérfræðingur í Greiningardeild Arion, segir jákvætt að verið sé að einfalda virðisaukaskattskerfið og um leið dempa vöxt.

Undir það tekur Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka. „Þetta getur dregið úr fjölgun og líklegast mun það gera það að einhverju leyti.

En þetta snýr því ekki í neinn samdrátt,“ segir Ingólfur. Hann telur að skattlagningin muni að einhverju leyti draga úr hækkun á gengi krónunnar og þar með draga úr þeim ruðningsáhrifum sem gengishækkun krónunnar hefði ellegar haft á aðrar útflutningsgreinar, til dæmis sjávarútveg.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×