Innlent

Meirihlutinn í OR vill greiða út 750 milljóna króna arð

Jakob Bjarnar skrifar
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja Dag leggja ofuráherslu á arðgreiðslu frá OR, þó það kosti brot á eigin reglum, til að fegra megi ársreikning sem leggja á fram á næstunni.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja Dag leggja ofuráherslu á arðgreiðslu frá OR, þó það kosti brot á eigin reglum, til að fegra megi ársreikning sem leggja á fram á næstunni.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórn OR, þau Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir, greiddu atkvæði gegn tillögu stjórnar um arðgreiðslu sem nemur 750 milljónum króna. Þau telja liggja fyrir að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri leggi hart að þeim í meirihlutanum með arðgreiðsluna, svo hart að stjórnin sé að brjóta eigin lög um arðgreiðsluskilyrði.

Aðalfundurinn verður haldinn í dag klukkan 12:30, í Iðnó og verður Vísir með beina útsendingu frá honum. Víst er að tekist verður á en í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur sitja þau: Brynhildur Davíðsdóttir formaður og Gylfi Magnússon er varaformaður. Aðrir fulltrúar eru Sigríður Rut Júlíusdóttir, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir og Valdís Eyjólfsdóttir. Fulltrúar í sveitarstjórnum eigenda OR, stjórnarmenn sem og fulltrúar fjölmiðla hafa seturétt en sveitarstjórar eigendasveitarfélaganna þriggja fara með atkvæðisrétt á fundinum.

Núverandi stjórn OR en formaður er Brynhildur Davíðsdóttir.
Tillagan um arðgreiðslur er svohljóðandi:

„Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) samþykkir að gera tillögu til aðalfundar um arðgreiðslu að fjárhæð 750 milljónir króna. Tillagan er háð því að öll arðgreiðsluskilyrði séu uppfyllt fyrir og eftir arðgreiðslu.“

Brjóta eigin reglur

Áslaug og Kjartan telja þetta óeðlilegt og hafa lagt fram bókun þar sem þau vekja athygli á því að eigendur OR hafi sett arðgreiðsluskilyrði fyrir félagið þar sem meðal annars kemur fram að veltufjárhlutfall skuli vera yfir 1,0.

„Samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningi fyrirtækisins er veltufjárhlutfallið undir þessum mörkum eða 0,8,“ segir meðal annars í bókun þeirra.

„Það er því mjög óeðlilegt að stjórn Orkuveitunnar samþykki nú tillögu til aðalfundar um arðgreiðslu vegna ársins 2016 þegar mikilvægu arðgreiðsluskilyrði, sem eigendur félagsins hafa sett því, hefur ekki verið fullnægt. Tillagan hefur verið unnin í miklum flýti eins og meðferð málsins ber með sér og eru slík vinnubrögð óviðunandi í ljósi mikilvægis þess.“

Hvers vegna þetta óðagot nú?

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins velta því fyrir sér hvers vegna afsláttur sé nú gefinn af viðmiðum sem stjórnin setti sér sjálf, þó vissulega hafi þau viðmið verið þröng? „Þetta sama fólk skilgreindi þessi skilyrði sem það nú vill brjóta,“ segir Áslaug í samtali við Vísi.

Áslaug veltir því fyrir hvort tillagan, sem einkennist af óðagoti sé fram komin til að fegra ársreikning borgarinnar?kristinn magnússon
Hún veltir því fyrir sér að hvaða leyti þetta tengist því að fegra eigi útkomu borgarsjóðs? Af hverju þessi flýtir og óðagot sem stingur í stúf við þá yfirvegun sem einkennt hefur Planið sem nú rétt hefur runnið sitt skeið á enda.

Þá hafa borgarfulltrúarnir áhyggjur af því að tillagan leiði til aukinnar lántöku og svo þess hvort ekki sé rétt að skoða frekar hvernig létta megi álögum af heimilum sem tóku á sig hækkanir á orkuverði, sem er hluti af háu húsnæðisverði, í hruninu en fá svo aldrei að njóta.

Vildu „í gær“ lækka skuldir OR

Í þessu samhengi benda þau á afgreiðslu tillögu í borgarráði 29. september síðastliðnum sem gekk út á einmitt það. Sú tillaga var felld með atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata sem lögðu þá fram svohljóðandi bókun:

„Arðsemi Orkuveitu Reykjavíkur er ekki í samræmi við áhættu í rekstri fyrirtækisins. Ótímabært er að taka til skoðunar gjaldskrárlækkanir fyrr en skilgreind hafa verið arðsemismarkmið fyrir starfsþætti OR og tryggt hefur verið að arðsemin samræmist markmiðum eins og gert er ráð fyrir í eigendastefnu. Þá þarf áfram að stefna að lækkun skulda og minnkun fjárhagslegrar áhættu næstu árin til að OR nái þeim fjárhagslega styrk sem gert er ráð fyrir í langtímamarkmiðum fyrirtækisins.“


Tengdar fréttir

Meirihlutinn á móti lækkun gjaldskrár OR

Borgarfulltrúi vill að skoðað verði hvort Orkuveitan geti lækkað gjaldskrár. Gert er ráð fyrir að fyrirtækið greiði út arð eftir tvö ár. Meirihlutinn er á móti.

„Plan“ Orkuveitunnar gekk upp

Aðgerðaráætlun Orkuveitu Reykjavíkur frá 2011 skilaði um tíu milljarða betri sjóðstöðu en reiknað var með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×