Skoðun

Mengunarmælingar og rekstur United Silicon

Helgi Þórhallsson skrifar
Síðastliðinn fimmtudag greindu Orkurannsóknir ehf. frá því að vegna mistaka hafði gildi þungmálma og PAH-efna í sýnum sem safnað var í mælistöð í nágrenni verksmiðju United Silicon í Helguvík verið stórlega ofmetið. Orkurannsóknir er óháður aðili sem hefur annast umhverfisvöktun við verksmiðju United Silicon í Helguvík undanfarið ár. Orkurannsóknir sögðu að vegna mistaka hefði gildi einstakra efna verið metið allt að 67 sinnum hærra en það hefur mælst í útblæstri frá verksmiðjunni og að framleiðsla þar hafi ekki verið byrjuð þegar hluti þessara ótrúlegu mælasýna varð til. Þá hefðu ríkjandi vindáttir á þessu tímabili staðið frá mælistöðinni að verksmiðjunni en ekki öfugt.

Þegar þessar upplýsingar birtust frá Umhverfisstofnun varð íbúum í Reykjanesbæ eðlilega brugðið. Starfsmenn United Silicon efuðust strax um þessar niðurstöður og töldu að þær gætu ekki átt við um starfsemi verksmiðjunnar. Þegar Orkurannsóknir drógu mælinganiðurstöður sínar til baka, og lýstu því yfir að þær væru mistök og úr öllu samhengi við raunverulega losun frá fyrirtækinu, gaf Umhverfisstofnun það út að óvissa væri í þungmálmamælingum í Helguvík.

Nýjar mælingar á gildi þungmálma og PAH-efna sem nú hafa borist og verið kynntar Umhverfisstofnun og United Silicon benda til að rekstur verksmiðjunnar hafi ekki mælanleg áhrif á magn þessara efna í umhverfinu. Samkvæmt síðustu mælingum virðist ekki skipta máli hvort verksmiðjan er í rekstri eða ekki, gildi þessara efna í umhverfinu mælast þau sömu.

Eins og þeir vita sem fylgjast með fjölmiðlum hefur verksmiðja United Silicon glímt við margvíslega örðugleika í byrjun rekstursins. Að undanförnu hefur verið lögð áhersla á að lagfæra og bæta búnað verksmiðjunnar. Stjórnendur United Silicon eru vel meðvitaðir um þær skyldur sem á þeim hvíla að stunda ábyrga atvinnustarfsemi í sátt við umhverfið og fólkið sem þar býr. Þær skyldur hyggjumst við rækja.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×