Erlent

Þrír látnir eftir alvarlegt rútuslys í Svíþjóð

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Farþegarnir voru á leið í skíðaferð.
Farþegarnir voru á leið í skíðaferð. Vísir/EPA
Þrír eru látnir og um 30 slasaðir eftir að rúta valt í Svíþjóð í morgun. Um sextíu farþegar voru um borð, flestir grunnskólanemendur.

Í frétt sænska ríkissjónvarpsins segir að nemendurnir hafi verið á leið í skíðaferðalag. 52 nemendur voru um borð, sex fullorðnir í fylgd með þeim, auk ökumanns.

Þrír hafa verið úrskurðaðir látnir og sex eru alvarlega særðir en alls hafa ellefu farþegar verið fluttir á sjúkrahús í grennd við slysstað.

Vitni á slysstað segir að flestir um borð í rútunni hafi verið sofandi þegar slysið átti sér stað. Rútan fór út af veginum og á hliðina. Óttast var um tíma að einhverjir farþegar hefðu lent undir rútunni en samkvæmt frétt Expressen reyndist svo ekki vera.

Tildrög slyssins eru ókunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×