Erlent

Tveir látnir í fjölmennum mótmælum í Venesúela

Atli Ísleifsson skrifar
Þrátt fyrir að búa yfir miklum olíuauðlindum hafa Venesúelamenn þurft að glíma við mikla verðbólgu, háa glæðatíðni og mikinn vöruskort á síðustu árum.
Þrátt fyrir að búa yfir miklum olíuauðlindum hafa Venesúelamenn þurft að glíma við mikla verðbólgu, háa glæðatíðni og mikinn vöruskort á síðustu árum. Vísir/AFP
Tugþúsundir Venesúelamanna taka nú þátt í mótmælum í höfuðborginni Caracas og tuttugu borgum til viðbótar þar sem þess er krafist að boðað verði til nýrra kosninga og að pólitískum andstæðingum ráðamenna verði sleppt úr fangelsi.

Yfirvöld í landinu hafa greint frá því að 23 ára gömul kona hafi látið lífið í mótmælunum í dag, en fyrr í dag kom fram að sautján ára piltur hafi verið skotinn til bana í mótmælunum í Caracas.

Búist er við að mótmælin verði þau fjölmennustu í landinu í þrjú ár þar sem verið er að þrýsta á forseta landsins, Nicolas Maduro, að taka upp viðræður við stjórnarandstöðuna þannig að landið geti unnið úr efnahagserfiðleikum sínum.

Þrátt fyrir að búa yfir miklum olíuauðlindum hafa Venesúelamenn þurft að glíma við mikla verðbólgu, háa glæpatíðni og mikinn vöruskort á síðustu árum.

Í frétt BBC kemur fram að andstæðingar stjórnarinnar lýsi deginum sem „öðrum sjálfstæðisdegi“ Venesúela, en að stuðningsmenn stjórnarinnar segjast vera að verja landið og olíuiðnaðinn.

Næstu kosningar er ekki fyrirhugaðar í landinu fyrr en árið 2019, en stjórnarandstæðingar segja landið vera á barmi hruns. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlar að verðbólgan á þessu ári muni fara yfir 700 prósent.

Rekja má mótmælin sem nú standa yfir til ákvörðunar Hæstaréttar landsins í síðasta mánuði að taka völdin af þinginu þar sem andstæðingar Maduro forseta eru nú í meirihluta. Hæstiréttur sneri við ákvörðun sinni þremur dögum síðar, en það var ekki nóg til að koma í veg fyrir nýja öldu mótmæla.

Að minnsta kosti sjö manns hafa látið lífið og fjölmargir særst í átökum mótmælenda og lögreglu á síðustu vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×