Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, skrifaði í dag undir tilskipun sem endurskoðar tímabundnar vegabréfsáritanir þess til gerðar að ráða erlenda starfsmenn til faglegra starfa í Bandaríkjunum. CNN greinir frá.
Tilskipunin uppáleggur einnig bandarískum ríkisstofnunum að ráða ekki erlenda verktaka.
Trump skrifaði undir tilskipunina í heimsókn sinni í verkfæraverksmiðju í Wisconsin-fylki í Bandaríkjunum í dag. Tilskipunin hefur hlotið hið óformlega heiti „Kaupum bandarískt, ráðum bandarískt“ eða „Buy American, Hire American“ en hún er liður í því að uppfylla kosningaloforð forsetans um að setja „Bandaríkin í fyrsta sæti“.
„Tilskipunin sem ég er í þann mund að undirrita mun vernda verkafólk og nema á borð við ykkur,“ sagði Trump er hann ávarpaði samkomu fólks í verksmiðjunni Snap-On Tools í Wisconsin.
Ætlað að herða reglur
Tilskipuninni er ætlað að vernda framleiðslu á varningi í Bandaríkjunum og einnig að herða hin svokölluðu H-1B-lög um vegabréfsáritanir í Bandaríkjunum. Lögin fela í sér ráðningar á faglærðum erlendum starfsmönnum í bandarísk störf.
Umsækjendum H-1B-vegabréfsáritana hefur þó fækkað umtalsvert síðan árið 2016 segir í frétt BBC um málið en með hinni nýundirrituðu tilskipun heitir ríkisstjórn Trumps því að koma í veg fyrir að kerfið verði misnotað.
Fyrirtæki í tæknigeiranum segja þó að H-1B-vegabréfsáritanir séu notaðar til að ráða hæfileikafólk í hæsta gæðaflokki. Þá hefur kerfið þó einnig verið gagnrýnt fyrir að gera bandarískjum fyrirtækjum kleift að ráða til sín ódýrt, erlent vinnuafl.
Trump undirritar tilskipun sem heitir því að „kaupa og ráða bandarískt“
Kristín Ólafsdóttir skrifar
