Innlent

Þrír í gæsluvarðhaldi vegna hnífstungunnar á Akureyri

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Tveir karlar og ein kona hafa verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til 21. apríl næstkomandi vegna hnífstunguárásar í Kjarnaskógi á Akureyri á föstudaginn langa.
Tveir karlar og ein kona hafa verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til 21. apríl næstkomandi vegna hnífstunguárásar í Kjarnaskógi á Akureyri á föstudaginn langa. Vísir/Auðunn
Tveir karlar og ein kona hafa verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til 21. apríl næstkomandi vegna hnífstunguárásar í Kjarnaskógi á Akureyri á föstudaginn langa. Þá mun einn maður til viðbótar vera í haldi lögreglu sem kannar tengsl hans við árásina. RÚV greinir frá.

Meintur árásarmaður, sem er nýorðinn 18 ára, ásamt pari, tvítugri konu og 27 ára karlmanni, voru handtekin á föstudagskvöld vegna málsins og leidd fyrir dómara í gær.

Maðurinn sem varð fyrir árásinni, var stunginn tvisvar sinnum í lærið og fór hann í sex klukkustunda langa aðgerð í gær þar sem læknar gerðu að sárum hans.

Guðmundur St. Svanlaugsson, rannsóknarlögreglumaður, sagði í samtali við fréttastofu í gær að árásin hafi verið mjög alvarleg.

„Mér skilst á þeim sem ég talaði við á sjúkrahúsinu, að ef honum hefði ekki verið komið á sjúkrahús, hefði honum getað blætt út, enda um að ræða slagæðablæðinu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×