Erlent

Að minnsta kosti 112 látnir eftir árásina í Sýrlandi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mikil eyðilegging var á vettvangi.
Mikil eyðilegging var á vettvangi. Vísir/EPA
Samkvæmt upplýsingum frá sýrlenskum mannréttindasamtökum eru að minnsta kosti 112 manns látnir eftir sprengjuárásina, sem átti sér stað í grennd við Aleppo-borg í Sýrlandi í gær. BBC greinir frá. 

Árásin beindist gegn rútum sem flytja áttu flóttamenn frá bæjunum Foah og Kefraya, en sprengjan sprakk í Rashidin, sem er vestan við Aleppo, sem er undir stjórn stjórnarhersins. 

Talið er að árásarmaðurinn hafi sprengt bíl sinn í loft upp, eftir að hafa þóst vera að flytja mat til flóttamanna. Tölur yfir látna voru mjög á reiki, enda mikil eyðilegging eftir árásina. 

Talsmenn stjórnarhersins segjast telja að uppreisnarhópar hafi verið á bakvið árásina, en uppreisnarmenn þræta fyrir það og segja að þessi árás hefði ekki þjónað neinum hernaðarlegum tilgangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×