Innlent

Urðu skelfingu lostin þegar ökumaður keyrði hratt á eftir þeim á göngustíg í Laugardalnum

Nadine Guðrún Yaghi og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Tveir fimmtán ára unglingar voru skelfingu losnir eftir að ökumaður keyrði hratt á eftir þeim á göngustíg í Laugardalnum í Reykjavík síðdegis í dag. Krakkarnir voru á vespu þegar þau segja tvo menn í svartri Opel Astru-bifreið hafa komið á fullri ferð í átt að þeim.

Guðjón Már Atlason og Silvía Rose Gunnarsdóttir voru stödd á vespu í Laugardalnum þegar atvikið átti sér stað og lýstu því í kvöldfréttum Stöðvar 2 hvað gerðist.

„Ég sá síðan að hann gaf allt í botn og það kom reykur og bíllinn hristist. Það er hægt að sjá hérna bílfar þar sem hann fór á fleygiferð hérna inn,“ sagði Guðjón Már.

„Bílar mega ekki vera hérna þannig að okkur fannst þetta mjög skrýtið og þeir brunuðu á móti okkur. Við drifum okkur því hingað en þeir stoppuðu ekki heldur beygðu áfram og eltu okkur,“ sagði Silvía Rose.

Þau Guðjón óttuðust um líf sitt og sögðust vera í sjokki.

 

„Þegar við vorum komin aðeins lengra þá var ég að leita að öllum leiðum til að komast út af þessum göngustíg.“

Silvía og Guðjón þekkja ekki mennina sem voru á bílnum.

„Við vitum ekkert hverjir þetta eru,“ sagði Silvía.

Lögreglan kom á staðinn og segir Silvía að lögreglan ætli að kíkja í öryggismyndavélar þar sem bílnúmerið gæti hafa náðst á eina slíka.

Gunnar Víking Ólafsson, faðir Silvíu, segir í samtali við Vísi að hann sé ekki sáttur við vinnubrögð lögreglu í málinu. Svo virðist sem það sé ekki í neinum forgangi þrátt fyrir að ökumaður bílsins hafi að sögn barnanna keyrt á fullri ferð í áttina að þeim.  

Eftir því sem fréttastofa kemst næst skoðar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu nú málið en ekki hafa fengist upplýsingar um hvort einhver hafi verið handtekinn vegna þess.

Frétt Stöðvar 2 um málið má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×