Innlent

Taka hluta af ávinningnum frá skólunum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ársæll Guðmundsson.
Ársæll Guðmundsson. vísir/gva
„Þetta eru náttúrlega gríðarleg vonbrigði. Það er ekkert öðruvísi,“ segir Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla.

Í nýrri fjármálaáætlun ríkisins, fyrir árin 2018-2022, er gert ráð fyrir að framlög ríkisins til framhaldsskólanna lækki samanlagt um 630 milljónir. Þar segir að umtalsverður sparnaður verði i framhaldsskólakerfinu vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú og það útskýri lægri framlög til málaefnasviðsins.

Í fjármálaáætlun áranna 2017 til 2021 var hins vegar áætlað að „allur sá sparnaður sem muni falla vegna styttingarinnar muni haldast innan kerfisins og fari í að efla framhaldsskólastigið enn frekar.“ Ársæll segir að verið sé að hafa af skólunum hluta af þeirri hagræðingu sem skólunum hafi verið gert að ná með styttingu framhaldsskólans úr fjórum árum i þrjú. „Það er verið að taka út úr framhaldsskólunum að einhverjum hluta þann ávinning af þeim breytingum sem kennarar, stjórnendur og aðrir hafa farið í gegnum,“ segir Ársæll.

Jón Már Héðinsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, tekur undir með Ársæli. „Það er alveg ljóst að það er ekki verið að standa við það sem lagt var upp með í sambandi við þriggja ára námið,“ segir hann.

Jón Már segir þetta vera vonbrigði. „Frá 2008 var búið að hagræða verulega mikið í framhaldsskólunum til þess að endar næðu saman og þess vegna eru veruleg vonbrigði að fá þetta ofan á það,“ segir Jón Már.

Í fjármálaáætluninni kemur fram að þrátt fyrir lækkun á framlögum til framhaldsskólastigsins aukast útgjöld á hvern nemanda um sem nemur 3–5% á ári að raunvirði. Sú lækkun er einkum til komin vegna fækkunar nemenda vegna styttingar náms til stúdentsprófs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×