Erlent

Kalla eftir úrsögn Jean Marie Le Pen vegna ummæla um látna lögregluþjóninn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Jean Marie Le Pen, er faðir Marine Le Pen, og fyrrverandi forsetaframbjóðandi.
Jean Marie Le Pen, er faðir Marine Le Pen, og fyrrverandi forsetaframbjóðandi. Vísir/EPA
Flokkur franska forsetaframbjóðandans Emmanuel Macron, En Marché!, hefur kallað eftir úrsögn Jean Marie Le Pen úr heiðursembætti frönsku Þjóðfylkingarinnar, vegna ummæla hans um samkynhneigð lögregluþjónsins sem lést í nýliðinni hryðjuverkaárás í París. Reuters greinir frá. 

Jean Marie, sem er faðir Marine Le Pen, forsetaframbjóðanda, stofnaði Þjóðfylkinguna árið 1972 og leiddi hana til sigurs í fyrri umferð forsetakosninganna árið 2002, áður en hann beið afhroð gegn frambjóðanda Repúblikana, Jacques Chirac, í aðalumferð kosninganna.

Ummæli Jean Marie, sem kölluðu á viðbrögð En Marché!, voru um minningarræðu sem samstarfsmaður lögreglumannsins hélt um hann.

Langa ræðan sem hann hélt var til þess fallin að stofnanavæða hjónaband samkynhneigða og gerði því mjög hátt undir höfði á opinberum vettvangi. Mér var afar brugðið.

Í tilkynningu frá flokki Macron er dóttir Jean Marie, harðlega gagnrýnd fyrir að hafa ekki fordæmt ummæli föður síns á opinberum vettvangi og kallað eftir því að hún gangi úr skugga um að hann segi sig úr flokknum.

Jean Marie hafði áður verið rekinn úr stjórn flokksins árið 2015, eftir að hafa sagt að „helförin væri einungis smáatriði í sögunni.“ Hann er enn heiðursforseti í Þjóðfylkingunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×