Skoðun

Helguvík – óheppni, reynsluleysi eða blekking?

Jóna Sólveig Elínardóttir skrifar
Það er ljóst að margt er við undirbúning uppbyggingar kísilvers United Silicon í Helguvík að athuga. Þær raddir heyrast jafnvel að villt hafi verið um fyrir íbúum Reykjanesbæjar í aðdraganda verkefnisins. Gagnrýnendur vísa þar m.a. til þeirra fyrirheita að fjöldi mikilvægra starfa myndi skapast fyrir íbúa svæðisins sem höfðu einmitt glímt við verulegt atvinnuleysi. Því var haldið fram að í boði yrðu vel launuð störf en sú hefur því miður ekki orðið raunin. Þá er gagnrýni vert hversu lítið var gert úr þeim neikvæðu umhverfisáhrifum sem hlotist gætu af starfseminni en við sjáum nú að neikvæð áhrif á nærsamfélagið voru stórlega vanmetin.

Mikilvægi fagmennsku

Það lítur út fyrir að verkefnið hafi verið bæði vanáætlað og vanfjármagnað frá byrjun. Hér kemur reynsluleysi þeirra sem stóðu að verkefninu eflaust við sögu og má velta fyrir sér hvort nauðsynlegt bakland þekkingar og fjármagns hafi vantað sem síðan veldur því að fyrirtækið hefur verið í skuld bæði við sveitarfélagið og verktakafyrirtæki sem að uppbyggingunni komu. Hér er vert að spyrja sig af hverju sterkir erlendir aðilar með reynslu í þessum geira voru ekki fengnir til að koma að verkefninu frá upphafi og þá með besta fáanlegan tæknibúnað og þekkingu. Það er til efs að reynsluboltar í bransanum hefðu lent í öllum þeim ógöngum sem raun ber vitni hjá United Silicon og með þeim afleiðingum sem íbúarnir upplifa nú. Fagmennska og reynsla eru enn mikilvægari í ljósi þess að verksmiðjan stendur mjög nálægt byggð.

Nú liggur fyrir að finna þarf viðunandi lausn á þeim vandamálum sem uppi eru í tengslum við þetta verkefni og ljóst að hagsmunirnir eru miklir fyrir sveitarfélögin og samfélagið allt að farsællega takist til. Þá er nauðsynlegt að læra mistökunum. Lausatök mega ekki líðast. Almenningur á rétt á því að allir þeir sem koma að undirbúningi svona verkefna séu fagmenn fram í fingurgóma og að ekkert sé á gráu svæði. Það er stjórnkerfisins að tryggja að ítrustu kröfum sé mætt og að vandvirkni sé höfð að leiðarljósi frá upphafi til enda til að fyrirbyggja mistök og tryggja hagsmuni þeirra sem búa á svæðinu.

Besti mælikvarðinn

Meginhlutverk stjórnmálamanna er að tryggja öryggi og vinna að bættum lífskjörum landsmanna. Til þess erum við kosin. Við getum haft mismunandi hugmyndir um hvernig á að fara að þessu, en þetta er grunnurinn. Hér er líðan og upplifun íbúanna besti mælikvarðinn. Það er eðlilegt, þegar íbúar Reykjanesbæjar finna til óöryggis, þegar heilsu þeirra er ógnað vegna mengunar og þegar vegið er að lífsgæðum þeirra, að stjórnmálamenn grípi í taumana og tali hátt og skýrt fyrir úrbótum.

Það þarf að finna viðunandi úrlausn mála áður en starfsemin getur haldið áfram. Íbúar svæðisins eiga heimtingu á því. Og við hljótum að spyrja okkur, þegar málum er svona háttað, hvort frekari fyrirhuguð uppbygging kísilvera í Helguvík sé rétt leið fram á við.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×