Netflix-þáttaröðin 13 Reasons Why hefur vakið mikla athygli og umræðu undanfarnar vikur.
Þáttaröðin er byggð á samnefndri skáldsögu eftir rithöfundinn Jay Asher og er sögð út frá sjónarhorni unglingsstúlku sem fremur sjálfsmorð. Hún tekur svo ástæðurnar að baki þeirri gjörð upp á segulband, sem skólafélagar hennar hlusta á.
Nýverið vöruðu geðheilbrigðissamtök við þessum þáttum en ein af aðalleikkonum þeirra, Kate Walsh, er þeirrar skoðunar að þættirnir eigi að vera skylduáhorf í skólum.
Walsh leikur móður Hannah Baker sem fremur sjálfsmorð en í viðtali við The Huffington Post sagði Walsh að framleiðendur þáttanna hefðu ákveðið að strípa dauðdaga stúlkunnar af öllum ljóma til að sýna slíkan hörmulegan atburð í réttu ljósi.
„Áhorfendur hafa brugðist misjafnlega við dauðdaga Hönnuh og einnig því sem við kemur kynferðisofbeldi og nauðgun,“ sagði Walsh. „Framleiðendur þáttanna voru þó ákveðnir í að sýna að það væri ekki hægt að fegra slíka hluti, að það væri ekkert dularfullt við þá, hvað þá draumkennt.“
Hún segir þættina reyna að takast á við þunglyndi og andleg veikindi og sýna hvernig það er þegar einhver reynir í raun og veru að fyrirfara sér.
„Það er ljótt og mjög þungbært en eitthvað sem á að sýna. Mér finnst að þessir þættir ættu að vera skylduáhorf í skólum. Að foreldrar, kennarar og nemendur horfi á þetta og ræði kynferðisofbeldi, einelti, málefni hinsegin fólks, kynþáttafordóma, stöðu kynjanna, sjálfsvíg, þunglyndi og andlega heilsu.“
Walsh er á því að opin umræða um þessi málefni muni hjálpa ungu fólki að þekkja og takast á við misnotkun og andleg veikindi. Það er hennar von að slík umræða muni rjúfa þögnina og lyfta skömminni af þessum málefnum.
Vill að 13 Reasons Why verði skylduáhorf í skólum

Tengdar fréttir

Geðheilbrigðissamtök vara við 13 Reasons Why
Þættirnir hafa notið mikilla vinsælda á Netflix undanfarin misseri. Headspace, áströlsk samtök um geðheilbrigði, hafa varað við þáttaröðinni á grundvelli þess að umfjöllunarefnið sé "hættulegt.“ Leikkona úr Stranger Things, annarri vinsælli Netflix-seríu, er á sama máli.