Innlent

Íbúðaverð nálgast góðærisástandið

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað mikið að undanförnu.
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað mikið að undanförnu. Vísir/Vilhelm
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu er nánast hið sama að raunvirði og þegar það var hæst á hápunkti góðærisins árið 2007.

Greining Arion banka gaf út skýrslu um fasteignamarkaðinn á Íslandi í lok janúar. Þar kom fram sú spá að fasteignaverð myndi hækka um tæplega 30 prósent til loka árs 2019. Stór hluti af spánni hefur þegar gengið eftir.

Viðskiptablað Morgunblaðsins greinir frá því í dag að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu sé nánast hið sama að raunvirði og þegar það var hæst árið 2007 á hápunkti síðasta góðæris. Fasteignaverð hefur hækkað um 21 prósent á síðustu tólf mánuðum.

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur hjá greiningu Arion banka, segir allt stefna í að íbúðaverð muni koma til með að hækka eitthvað áfram.

Ástæðuna fyrir hækkuninni undanfarin ár segir hann fyrst og fremst bætta fjárhagsstöðu heimila og hækkandi laun. Síðustu mánuði hafi húsnæðisverð hins vegar hækkað töluvert meira en laun.

„Það virðist vera bara að það sé einfaldlega skortur á íbúðarhúsnæði sem er þar að verki,“ segir Konráð.

Þá segir hann að skorturinn stefni í að aukast áður en hann batni. Varar hann jafnframt við hættu á að of margir stökkvi til nú og byggi íbúðir. Það geti leitt til sambærilegs vanda með offramboð og var fyrir tíu árum. Æskilegra að framboð á nýjum íbúðum væri jafnara.

„Það myndi klárlega koma í veg fyrir svona ofboðslegar sveiflur í verði og ástandi eins og við sjáum núna,“ segir Konráð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×