Innlent

Mikil umskipti í veðrinu næsta sólarhringinn: Varað við norðaustan stormi og snjókomu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Veðurspáin fyrir kvöldið og morgundaginn er ekkert sérstök.
Veðurspáin fyrir kvöldið og morgundaginn er ekkert sérstök. Vísir/Anton Brink
Veðurstofan varar við norðaustan stormi á Vestfjörðum seint í kvöld og í flestum landshlutum á morgun. Þá er varað við snjókomu til fjalla á norðaverðu landinu.

Veður fer kólnandi að því er segir í tilkynningu frá Veðurstofunni en á morgun er búist við norðaustan 15 til 25 metrum á sekúndu þar sem hvassast verður á Vestfjörðum fyrir hádegi og svo við suðurströndina síðdegis.

Slydda verður norðan heiða og snjókoma til fjalla en rigning sunnanlands. Færð og skyggni geta spillst skyndilega og þá einkum á fjallvegum norðan til. Víða verður lélegt ferðaveður.

Seinni partinn er svo spáð ívið hægari vindi og minni úrkomu. Á vef Vegagerðarinnar er einnig vakin athygli á þessari slæmu veðurspá en þar segir að mikil umskipti veðri í veðrinu næsta sólarhringinn.

Útlit sé fyrir talsvert hret sem verði hvað verst á Vestfjörðum. Hviður geti náð allt að 45 metrum á sekúndu.

„Hríðarveður þar á fjallvegum frá því í nótt og snemma í fyrramálið með NA 20-25 m/s. Blint verður og léleg akstursskilyrði á Steingrímsfjarðarheiði og eins á Gemlufallsheiði meira og minna á morgun. Holtavörðuheiði og Brattabrekka sleppa betur. Snjóar einnig á Öxnadalsheiði og fyrir austan á Möðrudalsöræfum og á fjallvegum Austfjarða frá því snemma í fyrramálið. Þá má reikna með stormi í Öræfum frá því kl. 9 til 12 á morgun og allt til kvölds. Hviður allt að 45 m/s,“ segir á vef Vegagerðarinnar.

Nánar má lesa um veðurspána á vef Veðurstofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×