Sport

Kallaði hana svindlara og sá síðan sjálf um að senda hana heim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eugenie Bouchard fagnar hér sigri.
Eugenie Bouchard fagnar hér sigri. Vísir/AP
Kanadíska tenniskonan Eugenie Bouchard var mjög ósátt við að Maria Sharapova fengi að keppa á opna Madrid-tennismótinu sem stendur yfir þessa dagana en Sharapova féll á lyfjaprófi á síðasta ári.

Bouchard gat ekki komið í veg fyrir að Maria Sharapova fengi keppnisleyfi á mótinu en hún nýtti heldur betur innbyrðisviðureign þeirra tveggja til að senda þeirri rússnesku skýr skilaboð.

Eugenie Bouchard og Maria Sharapova mættust nefnilega í 2. umferð opna Madridar-mótsins og Bouchard vann 7-5, 2-6 og 6-4. Bouchard fagnaði sigrinum innilega í lokin en handaband þeirra eftir leik var frekar vandræðalegt.

Maria Sharapova féll á lyfjaprófi á opna ástralska mótinu árið 2016 og var dæmd í kjölfarið í fimmtán mánaða bann. Bannið var stytt og hún komst strax inn á helstu mótin. Við það voru margir mjög ósáttir og þar á meðal sú kanadíska.

Bouchard lét skoðun sína í ljós opinberlega og kallaði hina rússnesku svindlara. Bouchard sagði að tennishreyfingin hefði átt að dæma Mariu Sharapovu í lífstíðarbann fyrir að hafa fallið á þessu lyfjaprófi.

Eugenie Bouchard talaði meðal annars um það að þessi endurkoma Sharapovu væri mjög ósanngjörn gagnvart öllum þeim tennisspilurum sem stunda íþróttina á heiðarlegan hátt.

Sharapova lét það vera að svara Bouchard þegar hún var spurð um ummælin á blaðamannafundi en Maria átti líka fá svör á móti þeirri kanadísku í leik þeirra í nótt.

Tapið þýðir að Maria Sharapova gæti líka misst af Wimbledon-mótinu en það kemur betur í ljós þegar nær dregur.

Handabandið í lokin.Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×