Innlent

Miðakapphlaup fyrir stórleik gegn erkifjendum hefst á hádegi

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Íslendingar töpuðu fyrir Króatíu á útivelli í nóvember svo Gylfi Þór Sigurðsson og félagar eiga harma að hefna.
Íslendingar töpuðu fyrir Króatíu á útivelli í nóvember svo Gylfi Þór Sigurðsson og félagar eiga harma að hefna. NORDICPHOTOS/AFP
Búast má við að mikill handagangur verði í öskjunni er sala aðgöngumiða á leik íslenska fótboltalandsliðsins gegn Króatíu hefst á slaginu klukkan tólf í dag.

Leikurinn, sem er liður í undankeppni fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Rússlandi á næsta ári, fer fram á Laugardalsvelli sunnudaginn 11. júní. Með sigri kæmist íslenska liðið upp að hlið Króata í efsta sæti síns riðils. Það sæti gefur beinan aðgang að úrslitakeppninni.

Verð miða er frá þrjú þúsund krónum upp í sjö þúsund krónur. Þá er hægt að kaupa miða á barnaverði fyrir sextán ára og yngri með 50 prósenta afslætti.

Fram kemur í tilkynningu Knattspyrnusambands Íslands að mest megi kaupa fjóra miða á hverja kennitölu. Sérstaklega er varað við því að brotið sé gegn banni við því að nota miðana í „markaðslegum tilgangi“ eins og til dæmis með því að gefa þá í leikjum á samfélagsmiðlum. „Verði einhver uppvís að slíku áskilur KSÍ sér rétt til að ógilda miðann,“ segir í tilkynningunni. Salan fer fram á midi.is.

Ísland er nú í tólfta sæti á styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins fyrir Evrópuþjóðir, einu sæti á eftir Króatíu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×