Skoðun

Ríkisstjórn stjórnarandstöðunnar

Bolli Héðinsson skrifar
Stöðugt fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins lýsa því yfir að þeir styðji ekki stefnumál ríkisstjórnarinnar þ. á m. um jafnlaunavottun. Ætlar Viðreisn að sætta sig við það? Er sjálfgefið að stjórnarandstaðan hjálpi ríkisstjórn sem hefur nú fellt grímuna og hyggst í engu koma til móts við einarða kröfu þjóðarinnar um aukin fjárframlög til innviða samfélagsins á sviði menntamála og ríkisrekinna heilbrigðisstofnana?

Þegar að afgreiðslu frumvarps um jafnlaunavottun kemur, sem er það eina sem Viðreisn hreykir sér af að hafa náð inn í stjórnarsáttmálann (Björt framtíð hreykir sér ekki af neinu), þá gefst stjórnarandstöðunni einstakt tækifæri til að gleðja sjálfstæðismenn. Það gera þeir með því að taka undir með formanni Sjálfstæðisflokksins um síðustu aldamót. Þessi formaður hefur í viðtalsbók (Í hlutverki leiðtogans, bls. 60) lýst því hvernig flokkar eigi að hegða sér í stjórnarandstöðu:

„Ég gerði öll mál tortryggileg … Ég tók því upp öll mál, jafnvel þó að ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim, og hjólaði í þau … því að ég leit á stjórnarandstöðu sem stjórnarandstöðu.“

Hér er einboðið að stjórnarandstaðan taki höndum saman og sýni sjálfstæðismönnum fram á áhrifamátt fyrrverandi formanns þeirra. Þeir fylgi leiðbeiningum hans og greiði atkvæði gegn frumvarpi um jafnlaunavottun jafnvel þó stjórnarandstaðan sé í hjarta sínu samþykk frumvarpinu. Þegar mikið liggur við skiptir það engu máli eins og þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins lýsti í viðtalinu.

Ef stjórnarandstaðan er reiðubúin að hlaupa undir bagga með ríkisstjórninni, ætlar hún bara að láta bjóða sér það sem ríkisstjórninni þóknast að rétta að henni hverju sinni? Ætlar stjórnarandstaðan ekki að krefjast þess á móti að ná einhverjum sinna mála fram, gegn því að styðja lykilmál ríkisstjórnarinnar? Getur ríkisstjórnin einfaldlega kallað á stjórnarandstöðuna eftir eigin hentugleika og hún hlýtt kallinu án þess að fá nokkuð í staðinn?




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×