Fótbolti

„Balotelli hefur ekki áhuga á að vera bestur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Balotelli hefur skorað 14 mörk í 21 deildarleik fyrir Nice.
Balotelli hefur skorað 14 mörk í 21 deildarleik fyrir Nice. vísir/getty
Cesare Prandelli, fyrrum þjálfari ítalska landsliðsins, segir að Mario Balotelli væri besti leikmaður heims ef hann hefði áhuga á því.

Prandelli og Balotelli unnu saman þegar sá síðarnefndi þjálfaði ítalska landsliðið á árunum 2010-14. Balotelli blómstraði m.a. á EM 2012 þar sem Ítalía komst alla leið í úrslit.

Balotelli hefur ekki náð að fullnýta þá miklu hæfileika sem í honum búa en Prandelli segir að forgangsröðin hjá Ítalanum sé röng.

„Ef Balotelli myndi setja fótboltann í fyrsta sæti stæðist enginn honum snúning,“ sagði Prandelli.

„Hann býr yfir ótrúlegum hæfileikum en það er sennilega ekki markmiðið hjá honum að verða bestur í heimi.“

Balotelli gekk til liðs við Nice fyrir tímabilið og hefur átt góðu gengi að fagna með franska liðinu. Ítalski framherjinn hefur skorað 14 mörk í 21 deildarleik fyrir Nice sem er í 3. sæti frönsku úrvalsdeildarinnar.

Það eru allar líkur á því að Nice verði í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili og þá fær Balotelli enn eitt tækifærið til að sýna sig og sanna á stærsta sviðinu.

„Hann getur enn gert stórkostlega hluti. Tíminn er enn með honum í liði,“ sagði Prandelli um fyrrum lærisvein sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×