Innlent

Sjö af hverjum tíu á móti áfengisfrumvarpinu

Atli Ísleifsson skrifar
Ekkert verður af því að leyft verði að selja vín í matvörubúðum á þessu þingi að minnsta kosti.
Ekkert verður af því að leyft verði að selja vín í matvörubúðum á þessu þingi að minnsta kosti. vísir/stefán
Nærri sjö af hverjum tíu Íslendingum eru mótfallnir frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi um að heimila sölu á áfengi í verslunum.

Þetta er niðurstaða rannsóknar Rúnars Vilhjálmssonar, félagsfræðiprófessors við Háskóla Íslands, en BSRB hefur styrkt gerð rannsóknarinnar sem unnin var með Félagsfræðistofnun Háskóla Íslands.

Í tilkynningu frá BSRB kemur fram að alls séu 69,2 prósent landsmanna andvíg því að frumvarpið verði að lögum en 30,8 prósent eru því fylgjandi. Spurt var: Hver er afstaða þín til frumvarps sem nú liggur fyrir Alþingi um að heimila sölu á áfengi í verslunum?

„Andstaða við frumvarpið er mest meðal stuðningsmanna Vinstri grænna, 88,8%, Samfylkingarinnar, 82,6%, og Framsóknarflokksins, 77,8%, en meirihluti stuðningsmanna allra flokka er andvígur frumvarpinu.

Þannig eru 54,4% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins á móti frumvarpinu, 54,8% stuðningsmanna Viðreisnar og 56,8% þeirra sem styðja Bjarta framtíð. Þá eru 58,4% stuðningsmanna Pírata andvígir því að frumvarpið verði að lögum.

Marktækur munur er á afstöðu kynjanna til frumvarpsins. Þannig eru nærri fjórar af hverjum fimm konum, 77,8%, andvígar frumvarpinu, en um þrír af hverjum fimm körlum, 60,6%.

Þegar afstaða landsmanna til frumvarpsins er skoðuð eftir aldri má sjá að meirihlutinn er andvígur frumvarpinu í öllum aldurshópum öðrum en þeim yngsta. Andstaðan eykst með hækkandi aldri. Aðeins hjá þeim sem eru 18 til 29 ára er naumur meirihluti fylgjandi frumvarpinu, alls 53,7%.

Andstaðan við frumvarpið er meiri á landsbyggðinni, þar sem 74% eru því mótfallnir, en á höfuðborgarsvæðinu, þar sem 66,5% eru andvígir þeirri breytingu sem boðuð er í frumvarpinu,“ segir í tilkynningunni en nánar má lesa um rannsóknina á vef BSRB.

Ljóst er að ekkert verður af því að leyft verði að selja vín í matvörubúðum á þessu þingi að minnsta kosti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×