Innlent

Hringveginum aftur lokað vegna veðurs

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Varað er við akstri húsbíla og léttra ökutækja á Suður- og Suðausturlandi vegna veðurs.
Varað er við akstri húsbíla og léttra ökutækja á Suður- og Suðausturlandi vegna veðurs. vísir/
Þjóðvegi 1 hefur verið lokað milli Gígjukvíslar og Jökulsárlóns vegna veðurs. Reiknað er með að lokunin geti staðið fram yfir hádegi. Stormviðvörun hefur verið gefin út vegna hvassviðri eða storms suðaustantil, en fyrir norðan og á Vestfjörðum í kvöld.

Búist er við mikilli úrkomu á Austfjörðum og á Suðausturlandi eftir hádegi og áfram mikilli úrkomu víða Austanlands á morgun. Varað hefur verið við vatnavöxtum og leysingum á austanverðu landinu og ekki er ólíklegt að aurskriður falli einhvers staðar á morgun þegar jörð er orðin vatnsósa.  

Veður fer jafnframt hlýnandi, sem eykur leysinguna, að því er segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu

Vaxandi norðaustanátt, 15-25 m/s í dag, hvassast SA-til. Talsverð eða mikil rigning eða slydda A-lands upp úr hádegi, en snjókoma til fjalla. Annars úrkomuminna. Austan 15-25 í kvöld, hvassast á annesjum N-til og á Vestfjörðum og úrkomumeira þar. Hiti 0 til 10 stig, mildast SV-til.

Austan og suðaustan 8-15 og talsverð eða mikil rigning A-lands á morgun, en annars rigning með köflum og hlýnandi veður.

Á laugardag:

Austan 10-18 m/s, hvassast nyrst og rigning með köflum, mikil rigning A-til. Dregur úr vindi og úrkomu síðdegis. Hiti 6 til 14 stig, hlýjast V-lands.

Á sunnudag:

Austlæg átt, 8-15 m/s, hvassast á annesjum. Talsverð rigning A-lands, en annars smá skúrir. Hiti 5 til 15 stig, hlýjast vestanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×