Erlent

Í mótsögn við sitt eigið starfsfólk

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur aðra sýn á brottrekstur Comey en starfsfólk hans.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur aðra sýn á brottrekstur Comey en starfsfólk hans. Nordicphotos/AFP
„Ég ætlaði alltaf að reka Comey,“ sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti um brottrekstur sinn á James Comey, yfirmanni alríkislögreglunnar, í viðtali við NBC í gær. Sagði hann að hvatning aðstoðardómsmálaráðherrans, Rods Rosenstein, þess efnis hefði ekki haft úrslitaáhrif.

Þetta gengur í berhögg við orð starfsmanna Trumps en í tilkynningu frá forsetaembættinu í gær kom fram að bréf Rosensteins hafi verið kveikjan að brottrekstrinum. Heimildir nokkurra bandarískra fjölmiðla herma að Rosenstein hafi ekki verið hrifinn af því að ábyrgðin væri sett á hann og hótað að segja upp í gær.

Í viðtalinu við NBC gagnrýndi Trump Comey fyrir að vera monthani og sagði hann jafnframt að starfshættir Comey hefðu valdið glundroða innan alríkislögreglunnar. Það samræmist yfirlýsingu forsetaembættisins sem í stóð að forsetinn, sem og aðrir starfsmenn alríkislögreglunnar, treystu Comey ekki lengur.

Andrew McCabe, starfandi yfirmaður, kom fyrir nefnd öldungadeildar þingsins í gær til að svara spurningum um brottreksturinn. Sagði hann að Comey hefði notið víðtæks stuðnings starfsmanna. „Ég get sagt ykkur það að mikill meirihluti starfsmanna hafði djúpstæð og jákvæð tengsl við Comey,“ sagði McCabe. Þá sagði hann að rannsókn al­ríkis­lögreglunnar á tengslum Rússlands við forsetaframboð Trumps væri einkar mikilvæg. Gagnrýnendur Trumps halda því fram að téð rannsókn gæti verið ástæða brottreksturs Comey. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×