Innlent

Lokun aflétt á Hringveginum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Vegum var lokað í gær vegna veðurs.
Vegum var lokað í gær vegna veðurs. vísir/
Vegurinn sem hefur verið lokaður í Öræfum var opnaður klukkan tíu í morgun en gripið var til lokana á veginum í gær vegna veðurs. Þá hefur Steingrímsfjarðarheiði sömuleiðis verið opnuð aftur og búið er að opna til vestur frá Freysnesi, sem og veginn undir Eyjafjöllum.

Þrátt fyrir opnanir eru vegfarendur beðnir um að hafa varann á enda víða hvasst og hált. Ekki er mælt með því að létt farartæki og húsbílar séu á ferli á fyrrnefndum stöðum.

Færð og aðstæður

Á Vestfjörðum er sums staðar nokkur hálka. Ófært er á Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði.

Snjóþekja er á Siglufjarðarvegi og Öxnadalsheiði en hálkublettir eru í Ólafsfjarðarmúla, á Víkurskarði og víðar.

Hálka er á Möðrudalsöræfum og Fjarðarheiði en snjóþekja m.a. á Vopnafjarðarheiði. Öxi er þungfær. Hálkublettir eru einnig á nokkrum vegum á Austurlandi.

Uppfært klukkan 10.35

Búið er að aflétta akstursbanni sem var í gildi vegna hvassviðris á Suður- og Suðausturlandi. Vegagerðin ítrekar að enn er víða hvasst, þá einna helst á Reynisfjalli og við Sandfell í Öræfum. Þar ættu húsbílar alls ekki að vera á ferð.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×