Spænski fjallgöngumaðurinn Kilian Jornet segist hafa klifrað upp á tind Everest, hæsta fjalls heim, tvisvar í sömu vikunni og það án súrefnis. The Guardian greinir frá.
Fyrri ferðina fór hinn 29 ára gamli Jornet síðastliðinn mánudag. Tók hann 26 tíma að komast upp á topp en Jornet hafði ætlað að setja met í því
að vera fljótastur upp á toppinn.
Jornet varð þó fyrir barðinu á krampa og þurfti að hægja á sér. Hann fór svo aftur ipp á topp síðastliðinn laugardag á aðeins sautján tímum.
Er það korteri frá meti Ítalans Hans Kammerlander sem kleif fjallið árið 1996 á aðeins sextán tímum og 45 mínútum.
Jornet segir að sú staðreynd að honum hafi tekist að komast upp á topp Everest tvisvar á fimm dögum, án súrefnis, muni opna „nýja möguleika í fjallamennsku.“
Samtök sem halda utan um met og annað slíkt í tengslum við Everest eiga þó enn eftir að staðfesta að Jornet hafi tekist að komast upp á þeim tíma sem hann heldur fram.
Everest hefur aldrei verið vinsælli en um þessar mundir en alls hafa 509 leyfi verið veitt til þess að klifra upp á topp, sem er met yfir eitt klifurtímabil.
Vilborg Arna Gissurardóttir, komst sem kunnugt er upp á toppinn á dögunum, fyrst íslenskra kvenna.
