Innlent

Sigmundur Davíð ræddi ekkert við Sigurð Inga um stofnun Framfarafélagsins

Atli Ísleifsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson hafði betur gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í formannskosningu á flokksþingi Framsóknarflokksins í október síðastliðinn.
Sigurður Ingi Jóhannsson hafði betur gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í formannskosningu á flokksþingi Framsóknarflokksins í október síðastliðinn.
„Ég er ánægður með að menn finni hugsjónum sínum einhvern farveg,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, um stofnun Framfarafélagsins, nýs félags Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi  formanns Framsóknarflokksins.

Sigmundur Davíð greindi frá því fyrr í dag að félagið myndi halda sinn fyrsta opna fund á laugardag. Í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni sagði Sigmundur að félagið væri vettvang til að virkja fólk sem þekki til á ýmsum og fjölbreyttum sviðum. Framsóknarflokkinn væri ekki lengur sá vettvangur fyrir sig. „Það er ekki lengur tækifæri fyrir mig að hafa Framsóknarflokkinn sem þennan vettvang, ekki að sinni,“ sagði Sigmundur Davíð.

Sigurður Ingi kveðst hissa á þeim orðum Sigmundar Davíðs. „Hvorki ég né aðrir hafa staðið í vegi fyrir því að menn geti lagt sínar hugmyndir þar [innan Framsóknarflokksins] á borð,“ segir Sigurður.

Sigurður Ingi segir Sigmund Davíð ekkert hafa rætt við sig um stofnun Framfarafélags, en segist þó hafa frétt af því að Sigmundur ynni að stofnun félags.

Túlkarðu þetta sem undanfara nýs flokks?

„Ég veit ekkert um það. Það verður fólk sem stofnar slíkt félag að svara,“ segir Sigurður Ingi.


Tengdar fréttir

Sigmundur Davíð stofnar nýtt félag

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, hefur tilkynnt um stofnun nýs félags, Framfarafélagsins, sem á að skapa öflugan vettvang fyrir frjálsa umræðu, fræðslu og framsetningu hugmynda og lausna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×