Guðni Th. Jóhannesson forseti og Eliza Jean Reid forsetafrú eru mætti til Finnlands til að taka þátt í hátíðarhöldum í tilefni af aldarafmæli sjálfstæðis Finnlands á morgun, fimmtudaginn 1. júní. Þar verða þau ásamt öðrum þjóðhöfðingjum Norðurlanda í boði finnskra stjórnvalda.
Í tilkynningu frá forsetaembættinu segir að hátíðarhöldin hefjist með viðhöfn í finnsku forsetahöllinni klukkan 10:50 þar sem forseti Íslands flytur ávarp ásamt forseta Finnlands, Sauli Niinistö.
„Þaðan verður haldið í ráðhús Helsinki þar sem gestir sitja hádegisverðarboð. Síðdegis verða dagskrárliðir m.a. í sænsk-finnska menningarsetrinu Hanasaari (Hanaholmen) og við minnismerkið um finnska tónskáldið Jean Sibelius. Að kvöldi fimmtudagsins 1. júní bjóða finnsku forsetahjónin til hátíðarkvöldverðar í finnsku forsetahöllinni.
Í dag, miðvikudaginn 31. maí, sitja forsetahjón hádegisverðarboð finnsku forsetahjónanna og forseti Íslands og forseti Finnlands munu eiga fund og ræða við fréttamenn. Þá mun forseti Íslands einnig eiga fundi í dag með Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands, og Maria Lohela, forseta finnska þingsins. Meðan á heimsókn forsetahjóna til Finnlands stendur munu þau jafnframt hitta Íslendinga búsetta í Finnlandi í móttöku sem sendiherra Íslands í Finnlandi býður til,“ segir í tilkynningunni.

