Innlent

Fljúga til Bíldudals frá Norður-Noregi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Finnbjörn Bjarnason í flugturninum á Bíldudalsflugvelli.
Finnbjörn Bjarnason í flugturninum á Bíldudalsflugvelli. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Bíldudalsflugvöllur hefur fengið nýtt hlutverk sem alþjóðavöllur. Vegna aukinna umsvifa í laxeldi á Vestfjörðum eru norskar flugvélar farnar að lenda þar reglulega. Í fréttum Stöðvar 2 var fylgst með því þegar Finnbjörn Bjarnason, flugvallarvörður á Bíldudal, afgreiddi norska flugvél. 

Það vakti athygli á dögunum að flugvél Ernis í innanlandsflugi þurfti að fljúga biðflugshring yfir Bíldudalsflugvelli vegna erlendrar flugvélar. Það er helst að Íslendingar lendi í biðflugi að Heathrow-flugvelli Lundúna en á Bíldudal var norska vélin komin á undan í aðflugið sem olli því að vél Ernis þurfti að fljúga einn aukahring.

Frá Bíldudalsflugvelli. Flugvél Ernis til vinstri en norska vélin er til hægri.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér, mátti heyra radíósamskipti Finnbjörns flugvallarvarðar við norska flugstjórann á ensku en Finnbjörn veitti þar norsku vélinni flugheimild til að fljúga í 21.000 feta hæð til Egilsstaða. 

Finnbjörn Bjarnason, flugvallarvörður á Bíldudal.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Norskar flugvélar fóru í fyrravor að venja komur sínar til Bíldudals vegna fiskeldis, að sögn Finnbjörns. Þær koma nú reglulega á þriggja vikna fresti frá Norður-Noregi vegna áhafnaskipta á þjónustubát. Þær millilenda á Egilsstöðum til tollafgreiðslu þar sem Bíldudalsflugvöllur hefur ekki formlega stöðu alþjóðaflugvallar. 

Dæmi um þá grósku sem laxeldið er að skapa í atvinnumálum á Vestfjörðum mátti sjá á Tálknafirði í síðustu viku þegar Arnarlax fagnaði komu stærsta og fullkomnasta fóðurpramma landsins. Stöð 2 sýndi beint frá mótttökunni en hér má sjá útsendinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×