Fimm manns hafa verið úrskurðaðir í fimmtán daga gæsluvarðhald, eða til 23. júní, vegna gruns um aðild að líkamsárás í Mosfellsdal í gær sem leiddi til dauða karlmanns á fertugsaldri.
Sjötti einstaklingurinn var úrskurðaður í átta daga gæsluvarðhald, eða til 16. júní. Öllum hinum grunuðu verður haldið í einangrun.
Fimm karlar og ein kona voru handtekin vegna málsins en maðurinn var úrskurðaður látinn á Landspítalanum í Fossvogi eftir að ráðist var á hann við Æsustaði í Mosfellsdal um kvöldmatarleytið í gær.
Fram kom í tilkynningu lögreglu í dag að rannsókn málsins sé mjög umfangsmikil og að hún sé í algjörum forgangi.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem fer með rannsókn málsins, segir að nú taki við áframhaldandi yfirheyrslur.
„Nú erum við að átta okkur á stöðunni og safna saman gögnunum. Við sjáum til hvort það verður gert um helgina eða hvort við gerum það í næstu viku," segir Grímur. Hann segist eiga von á því að einhverjar yfirheyrslur á vitnum verði um helgina.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Innlent