Erlent

Orrustan um Raqqa er hafin

Atli Ísleifsson skrifar
ISIS lýsti Raqqa sem höfuðborg ríkis þeirra í júní 2014, nokkrum mánuðum eftir að hafa náð völdum í borginni sem er í norðurhluta Sýrlands.
ISIS lýsti Raqqa sem höfuðborg ríkis þeirra í júní 2014, nokkrum mánuðum eftir að hafa náð völdum í borginni sem er í norðurhluta Sýrlands. Vísir/AFP
Orrustan um sýrlensku borgina Raqqa, helsta vígi hryðjuverjasamtakanna ISIS, er hafin. Frá þessu greina talsmenn kúrdíska bandalagsins SDF, sem nýtur stuðnings Bandaríkjastjórnar.

Mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights (SOHR) staðfesta einnig að árásir bandamanna á Raqqa hafi hafist í morgun. Talsmaður SDF segir að sótt sé að Raqqa út austri, vestri og norðri.

Að sögn SOHR eiga að hafa verið gerðar árásir á herstöð í norðurhluta Raqqa og í Mashab í austurhlutanum. „Þær byrjuðu í morgunsárið,“ segir Rami Abdel Rahman, yfirmaður SOHR.

Um helgina lýsti talsmaður SDF því yfir að aðgerðir til að ná borginni aftur úr höndum ISIS myndu hefjast „innan fárra daga“. Sveitir bandamanna hafa sótt í átt að borginni síðan í nóvember með það að markmiði að umkringja hana og loka þannig birgðaleiðum ISIS-liða.

Bandaríkjastjórn greindi frá því í síðustu viku að verið væri að koma vopnum til sveita SDF áður en sóknin inn í Raqqa myndi hefjast. Tyrklandsstjórn er mótfallin slíku þar sem hún flokkar SDF sem hryðjuverkasamtök.

ISIS lýsti Raqqa sem höfuðborg ríkis þeirra í júní 2014, nokkrum mánuðum eftir að hafa náð völdum í borginni sem er í norðurhluta Sýrlands.

Áætlað er að milli þrjú og fjögur þúsund liðsmenn ISIS séu nú í borginni þar sem búa rúmlega 200 þúsund manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×