Erlent

Árásin í London: Öllum sleppt úr haldi lögreglu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Fjöldi fólks safnaðist saman í London í dag til að minnast fórnarlamba árásarinnar.
Fjöldi fólks safnaðist saman í London í dag til að minnast fórnarlamba árásarinnar. Vísir/afp
Lögregla í London hefur sleppt öllum, sem handteknir voru á sunnudag í tengslum við árásina á London Bridge og Borough Market á laugardagskvöld, úr haldi. Þá hefur annað fórnarlamb árásarinnar verið nafngreint. Sky News greinir frá.

Tólf manns, sem handteknir voru á sunnudag í tengslum við árásina, var öllum sleppt úr haldi lögreglu í dag. Í hópnum voru bæði karlar og konur á aldrinum 19-60 ára. Fólkið var allt handtekið í Barking í austurhluta London, þar sem báðir árásarmennirnir sem hafa verið nafngreindir voru til heimilis.

Þá segir fréttastofa Sky News að árásarmennirnir hafi verið með fjölda bensínsprengja í sendiferðarbílnum, sem þeir óku á vegfarendur á London Bridge á laugardagskvöldið.

„Lögregluþjónar rákust á það sem virtust vera flöskur, fylltar litlausum vökva með tuskur í flöskuhálsinum, flöskurnar virtust greinilega vera Molotov-kokteilar eða bensínsprengjur. Eftir þvi sem ég best veit er enn verið að rannsaka flöskurnar,“ var haft eftir fréttamanni Sky News á vettvangi.

Annað fórnarlamb nafngreint

Þá hefur annað fórnarlamb árásarinnar verið nafngreint en hinn 32 ára James McMullan lést í árásinni. Hann var búsettur í Hackney í London en systir hans, Melissa McMullan, tilkynnti tárvot um andlát bróður síns í dag.

„Á meðan sársauki okkar dvínar aldrei er mikilvægt fyrir okkur að halda áfram að lifa lífinu í beinni andstöðu við þá sem reyna að tortíma okkur,“ sagði Melissa McMullan við blaðamenn í London.

7 létust í árásinni á laugardagskvöldið og 48 eru særðir. Tveir árásarmannanna hafa verið nafngreindir, Khuram Butt og Rachid Redouane. Sá fyrrnefndi birtist í heimildarmynd um öfgamenn er aðhyllast Íslam í Bretlandi en lögregla hafði fylgst með honum síðan árið 2013.

Þá hefur bróður Salmans Abedi, árásarmannsins í Manchester, verið sleppt úr haldi lögreglu þar í borg. Bróðirinn, Ismail Abedi, var handtekinn daginn eftir árásina í Manchester. Enn eru 10 í haldi lögreglu í Manchester vegna árásarinnar, þar sem 22 létu lífið.


Tengdar fréttir

Árásarmennirnir í London nafngreindir

Lögregluyfirvöld í London hafa gefið út nöfn tveggja af þremur árásarmönnum sem skotnir voru til bana í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar á London Bridge á laugardagskvöld.

Lilja: Hryðjuverkin risavaxin breyta í bresku kosningunum

Öfgaíslamistar ættu ekki að hafa dagskrárvald í kosningum, að sögn Lilju Alfreðsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins. Hún telur að hryðjuverkin á Bretlandi geti haft áhrif á kosningarnar sem fara fram á fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×