Erlent

Árásin í London: May gagnrýnd fyrir niðurskurð til löggæslumála

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. Vísir/EPA
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, er harðlega gagnrýnd fyrir niðurskurð til löggæslumála undanfarin ár undir stjórn Íhaldsflokksins, eftir þrjár hryðjuverkaárásir í landinu þrjá mánuði í röð. Guardian greinir frá.

Kosningabarátta hófst aftur í Bretlandi í dag eftir hlé í gær vegna árásarinnar í London og hélt May framboðsræðu í London. Þar sagði hún að valið í kosningunum sem fara fram þann 8. júní næstkomandi stæði á milli hennar sem reynslumikils leiðtoga og Jeremy Corbyn, manns sem hefði enga reynslu af stjórnun.

Eftir að ræðu May var lokið var hún ítrekað spurð út í stefnu Íhaldsflokksins varðandi löggæslumál og hvers vegna vopnuðum lögreglumönnum hefði fækkað jafnt og þétt og væru nú færri heldur en árið 2010.

May var auk þess spurð hvort að hún hefði séð eftir því að hafa skorið niður fjármagn til lögreglunnar á ferli sínum sem innanríkisráðherra árin 2010-2016 með þeim afleiðingum að lögreglumönnum fækkaði um 20 þúsund.

„Lögreglan í Bretlandi er vel fjármögnuð. Við höfum ekki skorið niður í deildum lögreglunnar sem snúa að hryðjuverkum og við höfum ekki skorið niður til lögreglunnar síðan árið 2015.“

Hún benti á að Verkamannaflokkur Corbyn hefði árið 2015 haft það á stefnuskrá sinni að skera niður til lögreglunnar um önnur tíu prósent en að Íhaldsflokkurinn hefði verið mótfallinn þeim áætlunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×