Erlent

ISIS tapar táknrænu lykilvígi sínu í Írak

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Vígamenn ISIS eiga við ofurefli að etja.
Vígamenn ISIS eiga við ofurefli að etja. Vísir/AFP
Hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Íslamska ríkið hafa flúið bæinn Baaj í norðvesturhluta Írak en bærinn hefur verið álitinn eitt af lykilvígum samtakanna. Guardian greinir frá

Síðustu vígamenn samtakanna yfirgáfu bæinn í gær og gáfu írakskar öryggissveitir út yfirlýsingu samdægurs um að „tekist hefði að frelsa bæinn“ og að fáni Írak hefði verið dreginn að húni yfir helstu stjórnarbyggingum þar.

Sigurinn er að mestu leyti talinn táknrænn en samtökin tapa sífellt meira landssvæði og hafa þau meðal annars tapað yfirráðum í borgunum Fallula, Tikrit, Ramadi og stærstum hluta Mosul borgar. Svo virðist sem endalok samtakanna í Írak séu í nánd.

Sjá einnig: Komið að endalokum kalífadæmisins

Talið er að örfáir skæruliðar samtakanna séu enn eftir í vesturhluta Mosul borgar og þá ráða samtökin enn yfir landamærabænum Bukamal. Eru það einu staðirnir í þéttbýli sem samtökin ráða enn yfir.

Aukin áhersla verður lögð á að berjast gegn samtökunum í Sýrlandi eftir því sem nær dregur endalokum þeirra í Írak.

Írakskar öryggissveitir hafa þá lagt áherslu á að hafa hendur í hári Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtoga samtakanna en talið er að hann megi finna í grennd við Baaj.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×