Erlent

Skotárás á fjölsótt hótel á Filippseyjum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Lögregla gerði áhlaup á hótelið.
Lögregla gerði áhlaup á hótelið. vísir/EPA
Hið vinsæla hótel Resorts World Manila í filipps­eysku höfuðborginni Maníla, var girt af í gærkvöldi eftir að lögreglu bárust tilkynningar um skothríð og sprengingar.

Greindi CNN Philippines frá því að grímuklæddur byssumaður væri á annarri hæð hótelsins og skyti á gesti og starfsmenn.

Þegar Fréttablaðið fór í prentun höfðu ekki borist fregnir af mögulegu mannfalli eða hversu margir hefðu særst.

Rauði kross Filippseyja tísti því hins vegar að starfsmenn samtakanna hefðu flutt þrjá af hótelinu og á sjúkrahús.

Stephen Reilly, yfirlögregluþjónn í borginni, staðfesti í samtali við CNN að skotum hefði verið hleypt af. Hann gat þó ekki sagt til um hversu margir árásarmenn hefðu verið á hótelinu.

Er Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti að Bandaríkin myndu draga sig út úr Parísarsamkomulaginu í gær sagðist hann fylgjast náið með framgangi mála í Maníla. Jafnframt sagði forsetinn að bænir hans væru helgaðar fórnarlömbum og aðstandendum þeirra. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×