Alvarleg mistök áttu sér stað við lagningu nýs reiðvegar sunnan við golfvöll Akureyringa í vor. Jarðvegur sem notaður var í veginn er mjög mengaður af alls konar postulíni og glerrusli sem er stórhættulegt bæði mönnum og dýrum sem eiga leið um veginn. Sviðstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar segir þetta hræðileg mistök og að rík áhersla sé lögð á að verktaki skipti út jarðveginum.
„Þetta eru hrikaleg mistök sem hafa átt sér stað við gerð reiðvegarins og bæði mönnum og dýrum stendur ógn af þessum vegi,“ segir Sigfús Ólafur Helgason, framkvæmdastjóri hestamannafélagsins Léttis á Akureyri. Reiðvegurinn sem um ræðir tengir hesthúsahverfi hestamanna á Akureyri við náttúruperluna Eyjafjörð og er fjölfarinn alla daga.
„Þarna hefur verið að koma upp glerrusl og postulín sem er stórhættulegt. Efnið virðist hafa verið tekið úr eldgömlum ruslahaug því þarna hafa komið upp Valash glerflöskur sem hætt var að framleiða í kringum 1970 að mig minnir. Við höfum verið í sambandi við Akureyrarbæ og þeir hafa viðurkennt að þarna hefur bara orðið slys við framkvæmdina og þeir ætla að bæta úr þessu. Það er ánægjulegt,“ bætir Sigfús við.
Guðríður Friðriksdóttir, sviðstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar, segir vinnu vera hafna við að bæta úr þessu. „Þetta er til skammar og við leggjum mikla áherslu á að úr þessu sé bætt. Verktakar sem unnu verkið eru að vinna að því að skipta út þessum jarðvegi. Þetta er ekki boðlegt eins og þetta var,“ segir Guðríður. „Við höfum tekið á þessu og munum fylgja þessu eftir.“
Þegar blaðamaður kannaði aðstæður í gær mátti sjá mikið af gömlum glerflöskum, ampúlum og postulíni í vegöxlum beggja vegna. Ljúka á við lagfæringar á veginum á næstu dögum en bæði gangandi og ríðandi vegfarendur fara um veginn dagsdaglega.
Innlent