Nú liggur ljóst fyrir hvaða 16 lið keppa á EM í handbolta í Króatíu á næsta ári.
Íslendingar verða þar á meðal en strákarnir okkar hafa verið með á öllum Evrópumótum frá árinu 2000. Þá var EM einmitt haldið í Króatíu.
Ísland tryggði sér þátttökurétt á EM á næsta ári með sigri á Úkraínu í kvöld, 34-26. Íslensku strákarnir fóru áfram sem liðið með besta árangurinn í 3. sæti riðlanna sjö í undankeppninni.
Tveir aðrir íslenskir þjálfarar en Geir Sveinsson verða með lið á EM á næsta ári; Kristján Andrésson, sem þjálfar sænska landsliðið, og Patrekur Jóhannesson, sem stýrir Austurríki.
Þrjú lið hafa verið með á öllum 12 Evrópumótunum sem haldin hafa verið; Króatía, Spánn og Frakkland. Þau verða að sjálfsögðu öll með á næsta ári.
Austurríki hefur minnsta EM-reynslu af liðunum 16 en austurríska liðið er aðeins að taka þátt á sínu þriðja Evrópumóti.
Dregið verður í riðla á föstudaginn kemur.
Þessi lið komust á EM:
Króatía - 12 sinnum með
Spánn - 12x
Frakkland - 12x
Danmörk - 11x
Svíþjóð - 11x
Þýskaland - 11x
Slóvenía - 10x
Ungverjaland - 10x
Ísland - 9x
Tékkland - 8x
Noregur - 7x
Serbía - 4x
Makedónía - 4x
Hvíta-Rússland - 4x
Svartfjallaland - 3x
Austurríki - 2x
