Erlent

Útlit fyrir yfirburðasigur En Marche

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Frakkar ganga til kosninga í síðari umferð þingkosninganna.
Frakkar ganga til kosninga í síðari umferð þingkosninganna. Vísir/Getty
Frakkar ganga nú til kosninga í síðari umferð frönsku þingkosninganna. Skoðanakannanir gefa til kynna yfirburðasigur miðjuflokksins En Marche. Útlit er fyrir að kjörsókn verði minni en í fyrri umferð þingkosninga.

Flokkur nýkjörins Frakklandsforseta, Emmanuels Macron er, tæplega ársgamall. Þrátt fyrir ungan aldur hreyfingarinnar hlaut hún 32,32% atkvæða úr fyrri umferð þingkosninganna sem haldnar voru 11. júní síðastliðinn. Flokkurinn hirti atkvæði bæði af hægri og vinstri flokkum.

Rótgrónir flokkar í Frakklandi, sem löngum hafa haldið um stjórnartaumana, óttast mjög En Marche með nýkjörinn Frakklandsforseta Emmanuel Macron í broddi fylkingar. Talsmenn flokkanna hafa hvatt kjósendur til þess að fylkja sér á bakvið helstu keppinauta En Marche með það fyrir augum að stemma stigu við samþjöppun valds. Ef marka má skoðanakannanir virðast skilaboðin ekki hafa tilætluð áhrif.

Pólitískir álitsgjafar í Frakklandi tala um uppgjöf á meðal þeirra kjósenda sem andsnúnir eru stefnumálum En Marche.

Tæplega helmingur flokksmanna En Marche hefur enga þingreynslu. Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá því að á meðal En Marche-liða sé fyrrum nautabani, flóttamaður frá Rúanda og stærðfræðingur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×