Erlent

Faðir Warmbier trúir ekki skýringum Norður-Kóreustjórnar

Atli Ísleifsson skrifar
Fred Warmbier, faðir Otto, ræddi við fjölmiðla í Ohio fyrr í dag.
Fred Warmbier, faðir Otto, ræddi við fjölmiðla í Ohio fyrr í dag. Vísir/AFP
Faðir bandaríska námsmannsins Otto Warmbier segist ekki taka skýringar Norður-Kóreustjórnar um ástæðu dás sonar síns trúanlegar. Foreldrar Warmbier ræddu við fjölmiðla á fréttamannafundi á sjúkrahúsi í Ohio fyrr í dag.

Foreldrar Warmbier sögðust hafa fengið þær skýringar að Otto hafi fallið í dá í mars 2016 eftir að hafa fengið svokallaða bótúlíneitrun og hafa innbyrt svefntöflu sem hann fékk að loknum réttarhöldum.

Fred Warmbier, faðir Otto, sagði á fréttamannafundinum að Norður-Kóreumenn hafi farið með son sinn á grimmilegan hátt. Sagði hann Otto hafa orðið fyrir alvarlegum taugaskaða en að ástand hans væri stöðugt.

Norður-Kóreustjórn sleppti Warmbier lausum fyrr í vikunni eftir að hann hafði verið dæmdur til fimmtán ára nauðungarvinnu á síðasta ári fyrir að stela áróðursskilti á hóteli sínu þegar hann heimsótti landið í janúar 2016.

Otto Warmbier í Norður-Kóreu.Vísir/AFP
Foreldrar Warmbier sögðust hafa frétt af því fyrst fyrir viku að sonur þeirra hafi verið í dái síðan í mars á síðasta ári, eða í um fimmtán mánuði.

Skömmu eftir að Warmbier var handtekinn birtist hann í viðtali á ríkismiðli Norður-Kóreu þar sem hann játaði brot sitt og sagði að kirkjusöfnuður hans í Bandaríkjunum hefði beðið hann um að koma heim með minjagrip. 

„Jafnvel þó að maður myndi trúa útskýringum þeirra um að bótúlíneitrun og svefntaflan hafi valdið dáinu – og það gerum við ekki – þá er engin afsökun fyrir siðmenntaða þjóð að hafa haldið ástandi hans leyndu og komið í veg fyrir að hann fengi bestu mögulega læknisaðstoð,“ sagði Fred Warmbier.

Otto Warmbier stundaði nám í hagfræði við Háskólann í Virginíu þegar hann var handtekinn á ferðalagi sínu til Norður-Kóreu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×