Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Stjarnan - Víkingur R. 1-2 | Logi kom, sá og sigraði á gamla heimavellinum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Guðjón Baldvinsson, framherji Stjörnunnar.
Guðjón Baldvinsson, framherji Stjörnunnar. vísir/anton
Víkingar unnu þriðja leikinn í röð í öllum keppnum undir stjórn Loga Ólafssonar í kvöld með 2-1 sigri á Stjörnunni í Garðabæ.

Var þetta annað tap Garðbæinga í röð eftir að hafa verið taplausir í fimm umferðum fram að því.

Gestirnir úr Fossvoginum komust í tvígang yfir í leiknum með mörkum frá Alex Frey Hilmarssyni og Ragnari Braga Sveinssyni en Jóhann Laxdal jafnaði metin í millitíðinni eftir klaufalegan varnarleik Víkinga.

Víkingar gerðu vel og lokuðu á helstu sóknarvopn Stjörnunnar í kvöld en það var áhyggjuefni fyrir Garðbæinga þegar Guðjón Baldvinsson var borinn af velli vegna meiðsla í fyrri hálfleik.

Víkingar hafa nú leikið fjóra leiki undir stjórn Loga án þess að tapa leik en honum tókst að sækja þrjú stig í fyrstu heimsókn sinni á gamla heimavöllinn eftir að hafa stýrt Stjörnunni á árum áður.

Afhverju vann Víkingur?

Logi Ólafsson lagði leikinn afskaplega vel upp fyrir Víkinga, þeir voru ekkert að stressa sig á því að vera minna með boltann þar sem þeir lokuðu vel á sóknarspil Stjörnunnar og voru alltaf tilbúnir að sækja hratt þegar tækifæri gafst.

Stjarnan var meira með boltann en í seinni hálfleik hafði Róbert Örn Óskarsson það nokkuð náðugt og fékk aðeins eitt skot á sig fyrir framan sterka vörn Víkinga.

Víkingar fengu færi til að skora fleiri mörk í skyndisóknum sínum í leiknum en fóru illa með lokasendinguna og náðu ekki að innsigla sigurinn fyrr en lokaflautið gall.

Hverjir stóðu upp úr?

Varnarlínan hjá Víkingum hélt einbeitingu nánast allan leikinn fyrir utan mistökin sem urðu við jöfnunarmark Stjörnunnar. Þar fyrir framan voru menn á fullu gasi allan tímann og gáfu Stjörnumönnum lítinn tíma til að byggja upp sóknir.

Á miðjunni var Alex Freyr Hilmarsson sífellt ógnandi með hlaupum inn á teiginn, var duglegur að finna auð svæði og verðskuldaði hann mark fyrir frammistöðu sína í kvöld.

Hvað gekk illa?

Ólafur Karl Finsen kom sprækur inn af bekknum undir lok fyrri hálfleiks en hann, rétt eins og félagar hans í sókninni, náði litlum sem engum takt í seinni hálfleik og voru hann og Hólmbert nánast ósýnilegir í seinni.

Þrátt fyrir dapran sóknarleik var þjálfarateymi Stjörnunnar ekkert á því að gera breytingar í von um að hrista upp í leiknum.

Hvað gerist næst?

Víkingar eiga annan gríðarlega erfiðan leik framundan gegn FH í Kaplakrika en eru á fínu róli með sjö stig í síðustu þremur leikjum. Það hefur hentað liðinu vel í gengum árin að leika gegn liðum þar sem þeir eru taldir vera minni spámaðurinn en FH má varla við því að tapa stigum.

Garðbæingar eiga tvo leiki gegn botnliðunum framundan og gæti það hjálpað liðinu að komast á beina braut á nýjan leik eftir tvo tapleiki í röð.

Alex: Sýndum hvað býr í þessu liði„Þetta sýnir styrkleika þessa liðs, það er að ég held langt síðan við tókum svona röð af leikjum þar sem við söfnum stigum,“ sagði Alex Freyr Hilmarsson, besti leikmaður vallarins í kvöld að leikslokum.

„Við getum samt ekkert verið að dvelja á þessu, þetta gefur okkur ekkert í næsta leik en þetta sýnir hvað býr í þessu liði. Við förum með aðeins meira sjálfstraust í leikinn gegn FH en við þurfum að mæta af sama krafti.“

Víkingar hafa farið vel af stað undir stjórn Loga Ólafssonar.

„Hann hefur einfaldað hlutina svolítið á jákvæðan hátt og minnt okkur á að hafa gaman af þessu.“

Logi: Frábært að koma hingað og taka þrjú stig„Það eru engin leyndarmál að manni líður hreint út sagt frábærlega eftir að hafa komið á heimavöll eins besta liðs deildarinnar í byrjun tímabilsins og taka þrjú stig,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari Víkings, sáttur að leikslokum.

„Það eru engir aukvisar í þessu liði, þeir eru með virkilega flott lið en við gerðum vel og náðum að bæta við marki í seinni hálfleik til að tryggja okkur stigin þrjú.“

Loga fannst sínir menn vera full varkárir eftir að hafa komist yfir í fyrri hálfleik.

„Við féllum full langt aftur, vorum of hræddir eftir góða byrjun á leiknum. Þá hættum við að reyna að halda boltanum og náðum engum tökum á boltanum en ég fór yfir þetta í hálfleik og sagði mönnum að róa sig niður.“

„Við fengum fullt af færum til að setja fleiri mörk á þá, sérstaklega í fyrri hálfleik þegar við komumst meðal annars þrír gegn einum en við náðum ekki að nýta okkur það nægilega vel.“

Víkingar gerðu vel í að loka á sóknarlotur Stjörnunnar.

„Við vitum það að boltinn gengur hratt hérna og við þurftum að spila góða vörn. Á meðan þú heldur Stjörnunni frá því að fá föst leikatriði og innköstin á góðum stöðum þá dreguru vel úr styrk þeirra og við gerðum það vel.“

Rúnar Páll: Ekki nógu beittir sóknarlega„Við vorum bara ekki nógu beittir sóknarlega, við náum að skora mark eftir fast leikatriði en við fengum urmul fastra leikatriða sem við náðum ekki að nýta okkur í dag,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, aðspurður hvað hefði farið úrskeiðis í kvöld.

„Við vorum allt of flatir, sérstaklega eftir að Guðjón fer útaf, það var veikleiki okkar í dag. Víkingarnir ná að skora þessi tvö mörk og það er það sem skilur liðin að í dag. Þeir voru þrælöflugir í dag.“

Dómarinn þurfti oft að stöðva leikinn vegna meiðsla og stöðvaði það svolítið flæðið í leiknum.

„“Þetta var mikill baráttuleikur, mér fannst ekkert ganga allt of vel hjá dómurunum í dag. Þeir voru með fókusinn svolítið mikið á bekknum og hvað gekk á þar, það mátti ekki segja orð og þá varð allt vitlaust. Þeir áttu ekki sinn besta dag en við töpuðum ekki leiknum út af dómurunum í dag,“ sagði Rúnar.

„Þetta er núna úr sögunni, við þurfum að koma okkur aftur niður á jörðina og gleyma þessum leik og mæta af krafti í næsta leik. Jújú, ætli það sé ekki hægt að finna eitthvað jákvætt þrátt fyrir tapið,“ sagði Rúnar að lokum aðspurður hvort það væri hægt að taka eitthvað jákvætt úr leiknum.

Stjarnan (4-3-3): Sveinn Sigurður Jóhannsson 4 - Jóhann Laxdal 6, Brynjar Gauti Guðjónsson 4, Daníel Laxdal 5, Jósef Kristinn Jósefsson 5 - Heiðar Ægisson 6, Alex Þór Hauksson 6, Baldur Sigurðsson 5 - Hólmbert Aron Friðjónsson 3, Hilmar Árni Halldórsson 5, Guðjón Baldvinsson 5 (36. Ólafur Karl Finsen 4).

Víkingur (4-3-3): Róbert Örn Óskarsson 6 - Dofri Snorrason 6, Alan Lowing 7, Halldór Smári Sigurðsson 7, Ívar Örn Jónsson 7 - Arnþór Ingi Kristinsson 6, Milos Ozegovic 4 (56. Erlingur Agnarsson 5), Alex Þór Hauksson 8 - Vladimir Tufegdzic 6 (85. Örvar Eggertsson), Ragnar Bragi Sveinsson 6(77. Davíð Örn Atlason), Ivica Jovanovic 7.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira