Íslenski boltinn

Fella Grindjánar þriðja risann í röð?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Grindavík vann KR í síðustu umferð með sigurmarki Andra Rúnars Bjarnasonar.
Grindavík vann KR í síðustu umferð með sigurmarki Andra Rúnars Bjarnasonar. Vísir/Andri Marinó
Pepsi-deild karla fer aftur af stað í kvöld eftir landsleikjahlé en þrír leikir verða spilaðir í kvöld og þrír á morgun.

Stórleikur kvöldsins er viðureign Grindavíkur og FH sem hefst klukkan 20.00 á Grindavíkurvelli en hann verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD klukkan 19.45.

Grindjánar eru búnir að fella tvo risa í síðustu tveimur leikjum en þeir unnu KR, 1-0, í síðustu umferð og Val, 1-0, í fimmtu umferðinni. Í heildina er Grindavík búið að vinna þrjá leiki í röð og er í þriðja sæti með þrettán stig, jafnmörg og Stjarnan og Valur á toppi deildarinnar.

FH komst upp í fimmta sæti með sigri á Stjörnunni í síðustu umferð en liðið er með níu stig. Það hefur ekki farið alveg nógu vel af stað og gæti verið þriðji risinn sem Grindavík fellir í röð.

Annar stór leikur fer fram í Kópavogi þar sem Breiðablik tekur á móti Val. Milos Milojevic byrjaði á tveimur sigrum á móti tveimur neðstu liðum deildarinnar; ÍA og Ólafsvík, en fær nú alvöru prófraun á móti einu besta liði landsins.

Skagamenn heimsækja svo KA-menn í leik sem hefst klukkan 19.15 en KA komst aftur á sigurbraut í síðustu umferð þegar liðið pakkaði Ólsurum saman, 4-1. ÍA er aðeins búið að vinna einn leik og þarf sárlega á stigum að halda í kvöld.

Vísir fylgist með öllum leikjunum í beinni textalýsingu.

Leikir kvöldsins

19.15 Breiðablik - Valur

19.15 KA - ÍA

20.00 Grindavík - FH




Fleiri fréttir

Sjá meira


×