Fótbolti

Þrír Frakkar skoruðu sín fyrstu landsliðsmörk í sigri á Englendingum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ousmane Dembélé og Kylian Mbappé fagna marki þess fyrrnefnda.
Ousmane Dembélé og Kylian Mbappé fagna marki þess fyrrnefnda. vísir/getty
Frakkland vann 3-2 sigur á Englandi í vináttulandsleik á Stade de France í París í kvöld.

Þessi lið hefðu mæst á þessum sama velli í 8-liða úrslitum á EM í fyrra ef Englendingum hefði tekist að vinna Íslendinga í 16-liða úrslitunum.

Harry Kane kom Englandi yfir á 9. mínútu en 13 mínútum síðar jafnaði miðvörðurinn Samuel Umtiti metin með sínu fyrsta landsliðsmarki.

Tveimur mínútum fyrir hálfleik kom Djibril Sidibé Frökkum yfir með sínu fyrsta marki fyrir landsliðið.

Eftir tveggja mínútna leik í seinni hálfleik  var dæmd vítaspyrna á Frakka og Raphaël Varane sendur í sturtu. Notast þurfti við myndbandstæknin í þessu tilfelli. Kane fór á punktinn og skoraði af öryggi, sitt áttunda mark fyrir enska landsliðið.

Þrátt fyrir að vera einum færri voru Frakkar sterkari aðilinn. Á 71. mínútu átti Kylian Mbappé skot í slánna á marki Englendinga.

Sjö mínútum síðar lagði Mbappé boltann á Ousmane Dembélé sem skoraði sigurmark Frakka. Líkt og Umtiti og Sidibé var hann að skora sitt fyrsta landsliðsmark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×