Innlent

Forseti borgarstjórnar fordæmir vopnaburð lögreglu

Jakob Bjarnar skrifar
Líf segir með ólíkindum að borgarfulltrúar séu að heyra það fyrst í fjölmiðlum að sérsveit lögreglunnar ætli að bera vopn á hátíðarhöldum í tilefni 17. júní.
Líf segir með ólíkindum að borgarfulltrúar séu að heyra það fyrst í fjölmiðlum að sérsveit lögreglunnar ætli að bera vopn á hátíðarhöldum í tilefni 17. júní.
Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar og oddviti VG í Reykjavík, fordæmir vopnaburð sérsveitar ríkislögreglu harðlega í nýrri Facebookfærslu. Og segir með ólíkindum að borgarfulltrúar séu að heyra það fyrst í fjölmiðlum að sérsveit lögreglunnar ætli að bera vopn á hátíðarhöldum í tilefni 17. júní.

Eins og Vísir hefur greint skilmerkilega frá er vopnaburður sérsveitarinnar afar umdeildur en gripið var til þess að hafa vopnaða lögreglumenn á fjöldasamkomum vegna meintrar hryðjuverkaógnar sem tíunduð er í nýju hættumati.

Málið er afar umdeilt og skiptast menn í tvö horn. Annars vegar eru þeir sem telja þetta auka öryggi og öryggistilfinningu borgarinnar og svo þeir sem telja þetta þvert á móti ala á ótta. Og sé reyndar fremur til þess fallið að skapa grundvöll fyrir ógn og jafnvel skærum. Líf er í seinni hópnum.

„Það er alveg með ólíkindum að borgarfulltrúar séu að heyra það fyrst í fjölmiðlum að sérsveit lögreglunnar ætli að bera vopn á hátíðarhöldum í tilefni 17. júní og á tónlistarviðburðinum Secret Solstice (sem borgin veitir leyfi fyrir),“ segir Líf.

Hún er líkast til að vísa til fréttar sem var í hádegisfréttum á RÚV þess efnis.

„Þó sérlög gildi um lögregluna þá þykir mér eðlilegt að yfirvöld hafi samband við önnur yfirvöld um þessi mál. Ég er þeirrar skoðunar að lögreglan eigi ekki að bera vopn og mér finnst eðlilegt að skoða hvernig borgin geti haft áhrif á það t.d. í gegnum lögreglusamþykkt Reykjavíkur.“

Líf segir seinna á þræði sem myndast hefur undir þessari færslu hennar að það skapi óöryggi að sjá vopnaða lögreglu niðrí bæ, ekki öryggistilfinningu. „Hvaða rugl er það að kalla til vopnaða lögreglu þegar viðbúnaðarstig hefur ekki verið hækkað? Óskiljanlegt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×