Fótbolti

Lögregla hvetur landsleiksgesti til að vera tímanlega

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Laugardalsvöllur.
Laugardalsvöllur. Vísir/Getty
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvetur knattspyrnuáhugamenn til að leggja tímanlega af stað á landsleik Íslendinga og Króata sem fer fram á Laugardagsvelli í kvöld klukkan 18.45. Búist er við mikilli umferð og því rétt að sýna þolinmæði. Tveimur klukkustundum fyrir leikinn verður opnað fyrir sérstakt stuðningsmannasvæði (e. Fan Zone) á bílastæðinu fyrir framan völlinn.

Lögreglan brýnir fyrir landsleiksgestum að bannað sé að leggja ólöglega. Veðurútlitið fyrir leikinn sé frábært og því tilvalið að leggja smáspöl frá leikvanginum. Einnig segir Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að upplagt sé að taka strætó.

Tæplega 10 þúsund manns verða á Laugardalsvellinum í kvöld og verður Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu með nokkurn viðbúnað vegna leiksins því hlutverk hennar sé að tryggja að allt gangi vel fyrir sig.

Knattspyrnusambandið og Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vilja að endingu minna á að allt miðabrask er ólöglegt. Ef slík mál koma upp verður þegar í stað tekið á þeim að því er fram kemur í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan vonast að sjálfsögðu eftir hagstæðum úrslitum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×