Innlent

Hvolpur hefur bæst við Björgunarsveit Hafnarfjarðar

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Urta er átta mánaða blóðhundur sem er nýkomin til landsins. Hún er sérstaklega ræktuð sem sporhundur og kemur frá Ungverjalandi. Hún mun nú hefja tveggja ára þjálfun til þess að komast á útkallslista Björgunarsveitar Hafnarfjarðar en til þess þarf hún að ná ákveðnum prófum.

Þórir Sigurhansson mun þjálfa hana og segir að þau séu enn að kynnast en að hann haldi að hún verði mjög flink.

„Næst á dagskrá er að leyfa henni að kynnast okkur og vera með mér alla daga. Svo er það umhverfisþjálfun, þar sem hún er þjálfuð í alls konar aðstæðum þar sem er mikið áreiti. Svo eftir svolítinn tíma förum við að spora með hana. Það verður gaman."

Perla hefur starfað sem sporhundur síðustu ár og er mjög ánægð með nýja félagsskapinn en björgunarsveitin hefur haldið sporhunda frá 1960.

„Urta er númer tólf í röðinni hjá okkur þannig að við erum að reyna að halda uppi röðinni. Við reiknum með að innan tveggja ára þurfum við að flytja einn hund í viðbót inn. Perla er að verða átta ára og er að komast á toppinn hjá sér. Við gerum ráð fyrir að nota hana í tvö ár í viðbót en það verður að koma í ljós hvernig heilsan verður."

Sporhundar björgunarsveitarinnar eru oft í lykilhlutverki í mikilvægum leitum.

„Við erum að fara í kringum þrjátíu til fjörutíu útköll á ári. Við förum mest í útköll fyrir lögreglu en líka ftrur björgunarsveitirnar. Þannig að það er talsverður erill hjá okkur," segir Þórir, hundaþjálfari Björgunarsveitar Hafnarfjarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×