Handbolti

Fullyrt að Aron sé búinn að semja við Barcelona

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron í leik með Veszprém.
Aron í leik með Veszprém. vísir/getty
Aron Pálmarsson hefur samið við spænska stórveldið Barcelona. Þetta er fullyrt í frétt spænska blaðsins El Mundo Deportivo.

Þar segir að Aron muni ganga í raðir Barcelona sumarið 2018 þegar samningur hans við ungverska meistaraliðið Veszprém rennur út. Hann gæti þó komið til Barcelona í sumar ef spænska félagið nær samkomulagi við Veszprém.

Paris Saint-Germain og Kiel, gamla félagið hans Arons, vildu einnig fá íslenska landsliðsmanninn en hann valdi Barcelona. Þá vildi Veszprém halda Aroni í sínum röðum.

Í frétt El Mundo Deportivo er því haldið fram að hluti af ástæðunni fyrir því að Aron valdi Barcelona sé að Ágústa Eva Erlendsdóttir, verðandi barnsmóðir Arons, vilji búa í þar í borg.

Aron hóf feril sinn í atvinnumennsku með Kiel 2009. Eftir að hafa fimm sinnum orðið þýskur meistari, þrisvar sinnum bikarmeistari og unnið Meistaradeild Evrópu í tvígang gekk Aron í raðir Veszprém 2015.

Aron hefur orðið tvöfaldur meistari bæði árin sín í Ungverjalandi. Þá vann hann SEHA-deildina, eins konar Meistaradeild Austur-Evrópu, með Veszprém í fyrra.

Tveir aðrir íslenskir handboltamenn hafa spilað með Barcelona; Viggó Sigurðsson og Guðjón Valur Sigurðsson. Þá lék Eiður Smári Guðjohnsen með fótboltaliði félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×