Erlent

Varpaði handsprengjum á byggingu hæstaréttar í Venesúela

Atli Ísleifsson skrifar
Mikill viðbúnaður er í höfuðborginni Caracas eftir mikil mótmæli síðustu mánuði.
Mikill viðbúnaður er í höfuðborginni Caracas eftir mikil mótmæli síðustu mánuði. Vísir/EPA
Hæstiréttur Venesúela varð fyrir sprengjuárás í nótt og segir forseti landsins, Nicolas Maduro, að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða.

Í myndskeiðum á netinu má sjá lögregluþyrlu sveima yfir byggingunni og í kjölfarið heyrast sprengingar og byssuskot.

Flugmaður þyrlunnar er lögreglumaður sem stal þyrlunni og notaði til árásarinnar, en hann kastaði handsprengum á húsið úr þyrlunni. Hann komst undan og er hans nú leitað.

Maðurinn gaf út yfirlýsingu á samfélagsmiðlum þar sem ríkisstjórn landsins er fordæmd og fólk hvatt til að rísa upp gegn kúgurunum eins og hann orðar það.

Venesúela er afar illa statt fjárhagslega og mikil mótmæli hafa verið gegn ríkisstjórninni síðustu misserin.

Hæstiréttur landsins hefur einnig verið harðlega gagnrýndur fyrir úrskurði sem sagðir eru tryggja Maduro forseta í sessi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×