Ríkið þarf að greiða háttsettum embættismönnum og forstjórum ríkisstofnana milljóna eingreiðslur vegna nýjustu úrskurða kjararáðs en þeir snúa meðal annars að ríkisendurskoðanda, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, forsetaritara, hagstofustjóra og framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar.
BSRB, sem löngum hefur gagnrýnt úrskurði kjararáðs, hefur reiknað út hversu háár eingreiðslurnar eru en launahækkanir kjararáðs eru afturvirkar og það mislangt aftur í tímann.
Þannig sýna útreikningar bandalagsins að Sveinn Arason, ríkiendurskoðandi, fær rúmlega 4,7 milljóna eingreiðslu vegna launahækkunarinnar, Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, á von um fjögurra milljóna króna eingreiðslu og Örnólfur Thorsson, forsetaritari, fær tæplega 1,8 milljóna króna eingreiðslu.
Ólafur Hjálmarsson, hagstofustjóri, fær svo 1,2 milljóna króna endurgreiðslu og framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar, Þorgerður Þráinsdóttir, fær eingreiðslu upp á 2,5 milljónir króna.
Á meðal þeirrar gagnrýni sem BSRB ítrekar nú er ógagnsæi í ákvörðunum kjararáðs en í frétt á vef bandalagsins segir meðal annars:
„Þá er rétt að ítreka gagnrýni á hversu ógagnsætt kjararáð er í ákvörðunum sínum. Þar er þess vandlega gætt að tiltaka ekki hver laun þeirra sem ákvarðanirnar ná til voru áður en ákvörðunin tók gildi. Það er því oft erfitt eða ómögulegt að sjá hversu miklar hækkanirnar eru í raun. Þessum feluleik þarf að linna og það er Alþingis að sjá til þess að almenningur hafi þær upplýsingar sem þarf. Þessi feluleikur er með öllu óþolandi.“
Innlent
Milljóna eingreiðslur vegna úrskurða kjararáðs
Tengdar fréttir
Kjararáð hækkar kjör sendiherra og átta embættismanna afturvirkt
Varaforseti Hæstaréttar hækkar um einn launaflokk og verður nú einum flokki lægri en forseti réttarins.