Theresa May fékk að ávarpa leiðtoga hinna 27 aðildarríkja Evrópusambandsins undir lok vinnukvöldverðar leiðtoganna í gær þar sem hún setti fram tilboð Breta í innflytjendamálum að loknum sambandsslitum. Samkvæmt því gætu Evrópumenn sem búið hafa í fimm ár eða lengur í Bretlandi búið þar áfram og notið allra réttinda sem þeir njóta nú til æviloka. Þeir sem búið hafa skemur fengju að búa þar áfram þar til fimm árum yrði náð til að sækja um varanlega búsetu. Gefinn yrði tveggja ára aðlögunartími fyrir aðra til að öðlast slík réttindi.
„Þetta er sanngjarnt og alvarlegt tilboð. Það gefur þeim þremur milljónum þegna Evrópusambandsins sem búa í Bretlandi fullvissu um framtíð sína og við viljum fá sömu fullvissu gagnvart þeirri rúmu milljón Breta sem búa innan Evrópusambandsins. Á mánudag mun ég birta tillögur okkar í smáatriðum og hlakka til að ná samkomulagi sem allra fyrst,“ sagði May í Brussel í dag.
Ekki með skýra mynd af vilja Breta
Jean Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, var ekki bjartsýnn eftir yfirlýsingu May. Þegar hann var spurður hvort hann hefði skýra mynd af því sem Bretar vildu ná fram í samningaviðræðunum var svarið einfaldlega „nei.“ Og þegar hann var spurður hvort yfirlýsing Theresu May um réttindi borgaranna væri skref í rétta átt svaraði hann.„Þetta er fyrsta skrefið en það er ekki fullnægjandi,“ en Juncker hefur alla tíð verið mjög ósáttur við útgöngu Breta úr sambandinu.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðsins, var ekki eins fámáll og Juncker en fullur efasemda. „Mín fyrstu viðbrögð er að tilboð Breta séu undir væntingum og fela í sér þá áhættu að staða borgaranna versni. En samninganefnd okkar mun fara yfir tilboðið línu fyrir línu þegar okkur hefur borist það skriflega,“ sagði Tusk í dag.
Evrópusambandið setti fram þá kröfu að málefni borgaranna yrðu rædd fyrst af öllu og nú segist May einnig alltaf hafa verið þeirrar skoðunar.
„Það er ákveðinn áherslumunur á milli tilboðs okkar og tillagna framkvæmdastjórnarinnar en málið fer nú til samninganefnda. Ég hef alltaf sagt að ég vildi að réttindi borgaranna yrðu með þeim fyrstu sem rædd yrðu í formlegum samningaviðræðum og þau verða það,“ sagði Theresa May í Brussel í dag.