Viðskipti innlent

Rio Tinto tapaði 3,3 milljörðum í Straumsvík

Haraldur Guðmundsson skrifar
Rekstur álversins hefur ekki gengið sem skyldi síðustu ár.
Rekstur álversins hefur ekki gengið sem skyldi síðustu ár. Vísir/GVA
Álver Rio Tinto í Straumsvík var rekið með 28,8 milljóna dala tapi í fyrra eða sem nemur 3,3 milljörðum króna miðað við gengið í árslok 2016. Tekjur álversins námu þá 387 milljónum Bandaríkjadala og drógust saman um 69 milljónir dala milli ára eða fimmtán prósent.

Samkvæmt nýbirtum ársreikningi Rio Tinto á Íslandi hf. einkenndu krefjandi markaðsaðstæður síðastliðið ár. Álverð var lágt stærstan hluta ársins, eins og kom fram í viðtali við Ragnar Guðmundsson, forstjóra Norðuráls, í Markaðnum í byrjun júní þegar greint var frá verstu afkomu fyrirtækisins frá stofnun eða tapi upp á 21,2 milljónir dala, og einnig hafði verkfall hafnarverkmanna í Straumsvík umtalsverð áhrif á reksturinn. Þá var framleiðsla einnig nokkrum takmörkunum háð vegna erfiðleika í kerskálum. Hátt hlutfall járns í áli olli því að hluti framleiðslunnar nýttist ekki sem skyldi. Álverið seldi því einungis um 192,5 þúsund tonn, og var nokkuð undir áætlun, en framleiddi 204,8 þúsund.

.
Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, segir í skriflegu svari við fyrirspurn Markaðarins að afkomuna í fyrra megi að mestu leyti rekja til lágs álverðs á heimsmarkaði og hás orkuverðs á Íslandi.

„Framleiðslan hjá okkur gengur hins vegar vel og eru horfur á þessu ári betri. Álverð hefur hækkað umtalsvert frá því í fyrra en á móti hefur sterk staða krónunnar mikil áhrif á okkur eins og önnur útflutningsfyrirtæki,“ segir Rannveig.

Árið 2012 var álverið í Straumsvík rekið með tapi í fyrsta sinn síðan Rannveig tók við sem forstjóri þess árið 1997. Síðan þá hefur reksturinn einungis einu sinni skilað jákvæðri afkomu eða upp á 1,9 milljónir Bandaríkjadala árið 2014, jafnvirði 250 milljóna miðað við þáverandi gengi. Var tapið mest árið 2013 eða upp á 32 milljónir dala. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×