Íslenski boltinn

Tryggvi hélt að sonurinn væri að fá rautt spjald fyrir dýfu en hann fékk víti

Guðmundur Andri fékk nýjan samning hjá KR í byrjun apríl.
Guðmundur Andri fékk nýjan samning hjá KR í byrjun apríl. mynd/kr
Guðmundur Andri Tryggvason, 18 ára gamall leikmaður KR í Pepsi-deild karla, var heldur betur á milli tannanna á fólki í gærkvöldi þegar hann fiskaði vítaspyrnu í uppbótartíma á móti Breiðabliki í 1-1 jafntefli liðanna á Alvogen-vellinum.

KR var 1-0 undir þegar að það fékk vítið en með tapi hefði liðið verið í fallsæti eftir átta umferðir. Guðmundur Andri elti boltann inn á teiginn og féll til jarðar þrátt fyrir að Gunnleifur Gunnleifsson virtist ekki koma við hann. Andri var á gulu spjaldi áður en hann henti sér niður.

Halda margir fram að um hreina og klára dýfu hafi verið að ræða en Þóroddur Hjaltalín, dómari leiksins, benti á punktinn og úr vítinu skoraði Óskar Örn Hauksson.

Tryggvi Guðmundsson, markahæsti leikmaður efstu deildar frá upphafi og faðir Guðmundar Andra, ræðir þetta mál í „Þrennu Tryggva“ á fótbolti.net þar sem hann gerir upp þrjú atvik í hverri umferð Pepsi-deildarinnar.

„Ég var sjálfur skítsmeykur við að það væri verið að fara að dæma dýfu á hann og hann fengi sitt annað gula og þar með rautt nýkominn inn sem varamaður,“ segir Tryggvi.

„Það er rosalega stutt á milli þess að vera hetja eða skúrkur í þessu. Þegar upp er staðið nælir hann í víti og reddar mikilvægu stigi fyrir KR. Ég ætla ekki sjálfur að dæma um það hvort þetta hafi verið víti eða ekki en þeir menn sem voru mest innblandaðir í atvikið segja víti,“ segir Tryggvi Guðmundsson um soninn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×