Erlent

Sjónvarpsmennirnir segja Trump ljúga og ýja að því að Hvíta húsið hafi hótað þeim

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur sætt gagnrýni fyrir Twitter-storm sinn í gær sem beindist að tveimur sjónvarpsmönnum MSNBC.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur sætt gagnrýni fyrir Twitter-storm sinn í gær sem beindist að tveimur sjónvarpsmönnum MSNBC. vísir/getty
Sjónvarspmennirnir tveir sem lentu í Twitter-stormi Donald Trump, Bandaríkjaforseta, hafa í dag svarað fyrir sig. Þau segja forsetann ljúga og ýja að því að Hvíta húsið hafi hótað þeim.

Þau Mika Brzezinski og Joe Scarborough, sem stjórna þættinum Morning Joe á MSNBC, skrifuðu sameiginlegt svar í Washington Post í dag.

Þar segja þau að tíst forsetans hafi verið illgjörn og ógnvekjandi en Trump sagði meðal annars að Brzezinski væri með lága greindarvísitölu og að henni hefði blætt illa eftir andlitslyftingu. Þá kallaði hann Scarborough „geðveika Joe.

Brzezinski og Scarborough, sem eru trúlofuð, segja jafnframt að þau hafi verið verið vöruð við því af starfsfólki Hvíta hússins að slúðurtímaritið National Enquirer myndi birta neikvæða sögu um þau nema sjónvarpsparið myndi biðja forsetann afsökunar á umfjöllunum sínum um hann.

Trump svaraði greininni í Washington Post á Twitter og Scarborough lét heyra í sér á móti.
Parið segir Trump vera með sjúklega þráhyggju gagnvart þeim og neituðu meðal annars að hafa eytt þremur nóttum á Mar-a-Lago-hóteli Trump um áramótin, eins og forsetinn hélt fram, og þá neituðu jafnframt að hafa krafist þess að eyða kvöldi með honum.

Fjölmargir, þar á meðal Repúblikanar, hafa gagnrýnt Trump fyrir tístin hans í gær. Þannig bað einn öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins forsetann um að einfaldlega að hætta þar sem þetta væri ekki eðlilegt.

Þá sagði Nancy Pelosi, leiðtogi Demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, að tíst forsetans væru aðför að prentfrelsinu og móðgun við allar konur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×